Lánshæfiseinkunn franska ríkisins verður áfram AA fyrir langtímalán og A-1+ fyrir skammtímalán samkvæmt nýju áliti matsfyrirtækisins Standard & Poor's. Hins vegar eru horfur þar í landi lækkaðar úr stöðugum í neikvæðar.

Standard & Poor's telur að staða ríkisfjármála í Frakklandi fari versnandi á næstu árum. Matsfyrirtækið spáir 4,1% fjárlagahalla í Frakklandi að meðaltali til ársins 2017, sem er aukning um tæpt prósentustig frá fyrri spá um fjárlagahalla.

Enginn hagvöxtur var í Frakklandi á öðrum ársfjórðungi og spáð er 0,2% vexti á þeim þriðja. Michel Sapin, fjármálaráðherra Frakklands, sagði á dögunum að Frakkland myndi ekki ná markmiðum sínum um fjárlagahalla á næsta ári. Þá gerðu upphaflegar áætlanir ráð fyrir 0,7% hagvexti á þessu ári, en í ljósi síðustu talna hefur sú áætlun lækkað niður í 0,4%.