Íslendingar, sem langþreyttir eru orðnir á karpi og loforðakapphlaupi hérna heima á klakanum geta þakkað fyrir að vera þó ekki í Venesúela, þar sem kosningabaráttan er hafin um forsetaembættið sem Hugo Chavez heitinn vermdi þar til fyrir skömmu.

Tilnefndur eftirmaður hans og starfandi forseti, Nicolas Maduro, hefur háð sína baráttu á svipuðum nótum og lærifaðir hans og reynt að höfða meira til fátækra, indíána og verkafólks. Á kosningafundi í Amazonas-ríki, sem er að stórum hluta byggt indíánum, sagði hann að „bölvun Macarapena“ myndi falla á alla þá sem ekki greiddu honum atkvæði sitt.

Vísar hann þar til orrustunnar við Macaparena, sem háð var á sextándu öld, en þar féll fjöldi innfæddra hermanna í bardaga við Spánverja. „Ef borgarastéttin vinnur mun hún einkavæða heilbrigðis- og menntakerfið og hún mun taka land af Indjánum, bölvun Macarapena mun falla á ykkur,“ sagði hann.

Maduro, sem kallað hefur sjálfan sig son Chavez, er með um 10% forskot á keppinautinn, Henrique Capriles, en stuðningsmenn Capriles spá því að bilið muni minnka þegar samúð með forsetanum heitnum fer minnkandi.