Hráolía hefur fallið í verði eftir að tilkynnt var í Írak að Abu Musab al-Zarqawi, leiðtogi al-Qaeda í landinu, hefði verið felldur. Verðið á tunnuna er komið niður fyrir 70 dollara.

Hráolía til afhendingar í júlí lækkaði um allt að 1,28 dollara tunnan eða 1,8%. Tunnan var á 69,75 dollara í London nú fyrir stundu. Brent fyrir júlí hefur lækkað niður í 68,31 dollar.

Verð byrjaði að lækka fyrir tveimur dögum þegar tilkynnt var að stjórnvöld í Íran tækju tillögur Evrópusambandsins varðandi kjarnorkuvæðingu landsins, til alvarlegrar íhugunar. Evrópusambandið hefur gefið Íran vilyrði fyrir tilslökunum í viðskiptum, tækniaðstoð og auknum samskiptum ef þarlend stjórnvöld hætta við áætlanir um auðgun úrans.