Fyrirhugað er að breyta lögum um ársreikninga og lögum um einkahlutafélög til að bregðast við fjölda félaga sem ekki skilar ársreikningum til embættis Ríkisskattstjóra. Áform um þess háttar lagasetningu var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fyrr í dag.

Viðamiklar breytingar voru gerðar á lögum um ársreikninga árið 2016 en með þeim var stefnt að því að sporna við kennitöluflakki og bæta skil á ársreikningum. Meðal annars var sú breyting gerð að öll félög sem falla undir gildissvið ársreikningalaganna skuli skila inn ársreikningi, óháð því hvort þau eru í rekstri eður ei, og heimildir til að leggja á sektir vegna vanskila voru styrktar.

Þá var heimild til að krefjast skipta á búi félags, sem ekki skilar ársreikningi til opinberrar birtingar, færð frá hlutafélagaskrá og ársreikningaskrá og tímafrestir styttir.

Þrátt fyrir fyrrgreindar breytingar er enn fjöldi félaga sem ekki hefur skilað inn ársreikningi fyrir reikningsárið 2017. Nákvæmur fjöldi er 2.066 félög. Vafalaust er nokkur hluti þeirra ekki í rekstri en að mati stjórnvalda er mikilvægt að bregðast við og afskrá eða slíta þeim félögum sem ekki skila ársreikningi þar sem þau skekki heildarmyndina af viðskiptalífinu.

„Ljóst er að verulegur kostnaður hlýst af því að krefjast skipta á búi þeirra félaga sem ekki skila ársreikningi til opinberrar birtingar en þegar ársreikningaskrá gerir kröfuna þarf að leggja fram tryggingu vegna kostnaðar við slitin en á móti verði gerð krafa sem því nemur í búið þegar það er gert upp. Einnig þarf að hafa í huga að dómstólar þurfa að geta tekið við þeim málum sem fara í þennan farveg en gera má ráð fyrir að fyrstu árin verði fjöldi slíkra mála töluverður meðan unnið er að því að bregðast við uppsöfnuðum vanda síðustu ára,“ segir í áformum dómstóla.

Breytingarnar sem lagðar verða til á haustþingi miða að því að fækka þeim félögum sem fara í slitameðferð í fyrrgreindu hreinsunarstarfi. Þannig muni nægja að afskrá einhver þeirra í stað þess að slíta þeim.