Þó að Ísland og Ekvador séu ólík lönd að mörgu leyti er áhugavert fyrir Ísland að skoða reynslu annarra landa, sem lent hafa í svipaðri stöðu og íslenska hagkerfið er nú í.

Þetta sagði Alonso Perez, efnahagsráðgjafi forseta Ekvador, í fyrirlestri sem hann hélt í Hátíðarsal Háskóla Íslands nú í hádeginu. Ásamt ráðgjafastarfinu er Perez einnig prófessor við London School of Economics.

Umfjöllunarefni fyrirlestrarins var aðdragandi og hrun gjaldmiðils og bankakerfis Ekvador sem leiddi til þess að gjaldmiðli þess lands var skipt út fyrir bandaríkjadollar.

Að undanförnu hefur borið á umræðu um að Ísland taki einhliða upp annan gjaldmiðil og innlegg Alonso Perez er liður í þeirri umræðu.  Á fundinum bar á fólki úr stjórnmálum og bankakerfinu ásamt fræðimönnum og öðrum áhugasömum um málefni Íslands.

Perez segir Íslendinga geta lært ýmislegt af dollaravæðingu Ekvador. Hann segist ekki vera kominn hingað til þess að segja okkur hvað við ættum að gera í gjaldeyrismálum, heldur til að leggja sitt af mörkum í umræðuna um hvaða möguleikar eru í boði.

Bankakerfið í Ekvador hrundi

Banka- og gjaldeyriskreppa reið yfir Ekvador á árunum 1998-1999. Um 85% af bankakerfinu hrundi og ríkisvaldið þar í landi frysti allar innistæður.

Gjaldmiðill landsins veiktist mikið á einu ári og gríðarlegur samdráttur varð í eftirspurn. Ríkisstjórnin tók til þess ráðs að hækka vexti upp úr öllu valdi en peningamálastefnan hafði engin áhrif á raunhagkerfið.

Um 10-15% af peningamagni í umferð var í innlenda gjaldmiðlinum en afganginum hafði þegar verið skipt í dollara. Fólkið og fyrirtækin í landinu áttu því frumkvæðið að dollaravæðingunni, og ekki var aftur snúið.

Perez segir að við upptöku dollars hafi gegnsæi skapast í bankakerfinu í Ekvador. Skuldir ríkisins lækkuðu en skuldir einkageirans hækkuðu. Innlán jukust mikið og fólkið í landinu fór að treysta bankakerfinu.

Eftir upptökuna fór hagkerfið að vaxa hratt aftur og atvinnuleysi lækkaði, með auknum sveigjanleika á vinnumarkaði. Það mikilvægasta var þó að gengisáhættan hvarf, sem hafði áður mjög slæmar afleiðingar fyrir hagkerfið.

Einnig jókst agi í ríkisfjármálum og verðbólga lækkaði og nálgaðist fljótlega verðbólguna í Bandaríkjunum. Alonso Perez segir þó að þessi tilraun hefði líklega ekki tekist ef ekki hefði verið fyrir stuðning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Perez vék einnig að freistnivanda bankakerfisins í máli sínu og sagði það vandamál að bankar virðist ávallt haga sér óskynsamlega þegar þeir vita af stuðningi seðlabanka sem lánara til þrautarvara.

Hafa ber í huga að þó einhliða upptaka dollars hafi virkað vel í Ekvador er það vanþróað ríki og varast ber að taka þeirra reynslu of bókstaflega.