Bankinn Close Brothers, sem Landsbankinn [ LAIS ] var í viðræðum við þar til í janúar vegna mögulegrar þátttöku í yfirtöku, hefur nú lýst því yfir að hann eigi ekki lengur í viðræðum um sölu, hvorki að hluta né í heild. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Landsbankinn hafði áfram áhuga

Landsbankinn hafði ásamt Cenkos Securities átt í viðræðum um kaup á Close Brothers og hafði Landsbankinn augastað á bankastarfsemi fyrirtækisins. Þegar Cenkos datt út og hætt var að ræða tilboð Cenkos og Landsbankans kom fram að Landsbankinn hefði enn áhuga á að yfirtaka bankastarfsemi Close Brothers. Ennfremur kom fram að Close Brothers ætti áfram í viðræðum við nokkra aðila og útlit var fyrir að Landsbankinn ætti enn möguleika á að eignast bankastarfsemina, sem hefði orðið til þess að 60% af heildartekjum Landsbankans yrðu utan Íslands.

Close Brothers, sem er með skakkt reikningsár, birtir milliuppgjör sitt á morgun, mánudag.