*

mánudagur, 8. mars 2021
Fólk 24. janúar 2021 19:01

„Hundfúlt að vera í heimanámi“

Guðný Hildur Kristinsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Útfararstofu Kirkjugarðanna, vann áður fyrir Ingibjörgu Pálmadóttur.

Höskuldur Marselíusarson
Eftir að hafa rekið hótel og prentsmiðju hefur Guðný Hildur Kristinsdóttir tekið að sér allt annars konar rekstur hjá Útfarastofu Kirkjugarðanna. Henni fannst góð endurnýjun að fara í MBA nám og svo nýtur hún sér í golfi, jafnvel í stormi.
Aðsend mynd

„Mitt hlutverk er að stýra rekstrinum auk þess að taka þátt í móttöku aðstandendna þegar útför er skipulögð. Við hjálpum þeim við að velja kirkju, presta, organista, tónlistarfólk, kistur, skreytingar og annað sem þarf auk þess sem við erum með lögfræðiþjónustu. Hér starfa tíu manns, en við sinnum líka útköllum allan sólarhringinn þar sem við sækjum á heilbrigðisstofnanir og heimahús," segir Guðný Hildur Kristinsdóttir nýr framkvæmdastjóri Útfarastofu Kirkjugarðanna.

„Útfarastofan, sem er í eigu Reykjavíkurprófastsdæmanna tveggja, austur og vestur, er rekin sem sjálfstætt fyrirtæki á samkeppnismarkaði, en hún hefur í gegnum árin skilað góðum hagnaði sem rennur í að reka kirkjugarðana. Stofan, sem rekja má til ársins 1949, er aðskilin frá rekstri kirkjugarðanna sem eiga líkhúsið þar sem aðrar útfararstofur hafa aðstöðu."

Guðný Hildur kemur úr allt annars konar rekstri en hún var hótelstjóri 101 Hótels þar til í byrjun síðasta árs. „Ég byrja 2012 að vinna hjá Ingibjörgu Pálmadóttur vinkonu minni á þessu dásamlega fallega hóteli sem hún hannaði sjálf. Þá var ég að klára frábært MBA nám sem var eins og að ýta á „refresh" takann fyrir mig en áður hafði ég bætt við mig alls konar viðskiptafræðikúrsum," segir Guðný Hildur sem vann þar áður hjá fjölskyldufyrirtækinu Formprent.

„Ég vann þar í yfir tuttugu ár með manninum mínum og foreldrum, en það samstarf var alltaf farsælt og er ákveðinn söknuður af því. Í haust sótti ég svo námskeið í því að vera viðurkenndur bókari hjá HR, enda alltaf haft mikinn áhuga á og starfað í rekstri og fannst mér ég læra helling af því þó auðvitað væri hundfúlt að vera í heimanámi og geta ekki sótt tíma." Guðný Hildur kynntist eiginmanni sínum, Vestur-Íslendingnum Mark Wilson, í Háskólanum í Winnipeg í Kanada.

„Við kynntumst ekkert af því hann var af íslenskum ættum heldur vorum við saman í hagfræði. Oft þegar ég sagðist vera frá Íslandi sagðist fólk vera íslenskt, en þá af fjórðu eða fimmtu kynslóð. Svo þegar Mark fór að segja mér frá því að mamma hans, sem er nú 101 ára, væri íslensk þá fannst mér það ekkert voðalega merkilegt. En svo kom í ljós að foreldrar hennar voru bæði fædd á Íslandi," segir Guðný Hildur.

„Við eigum tvö börn, stúlku og dreng, sem eru 32 ára og 27 ára, og einn fjögurra ára dótturson, og er aðaláhugamálið að dekra við hann. Síðan er golf það skemmtilegasta sem við gerum, þó við kunnum ekki neitt, en það er aukaatriði, og var yndislegt að byrja daginn í sumar á vellinum með vinkonunum. Það gerði síðan brjálað veður þegar við fórum á golfmót í september svo við þurftum að hlaupa á eftir kerrunum, sem var samt ótrúlega skemmtilegt."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.