Íbúðafjárfesting jókst um 38% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi samanborið við sama tímabil árið áður, samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofunnar . Er það um 44% umfram langtímameðaltal íbúðafjárfestingar síðan 1997.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins jókst íbúðafjárfesting um 11% samanborið við mánuðina þrjá þar á undan. Alls nam fjárfesting í íbúðarhúsnæði tæplega 30 milljörðum króna á ársfjórðungnum.

Almennt jókst fjárfesting um 11,6% milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Vöxtinn má að mestu leyti rekja til íbúðafjárfestingar. Fjárfesting atvinnuvega jókst um 7,1% og fjárfesting hins opinbera jókst um 2,2%.