Íbúðalánasjóður hefur, í kjölfar útboðs á íbúðabréfum ákveðið að lækka útlánavexti sjóðsins. Þannig verða útlánavextir íbúðalána með uppgreiðsluákvæði 4,60% og 5,10% á íbúðalán án uppgreiðsluákvæðis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóð en hin nýja vaxtaákvörðun tekur gildi í dag, 18. júní 2009.

Samkvæmt lögum um húsnæðismál getur stjórn Íbúðalánasjóðs ákvarðað vexti ÍLS-veðbréfa með hliðsjón af fjármögnunarkostnaði í reglulegum útboðum íbúðabréfa og með vegnum fjármagnskostnaði vegna uppgreiddra lána, að viðbættu vaxtaálagi.

Í fyrradag, þann 16. júní hélt Íbúðalánasjóður útboð á íbúðabréfum. Alls bárust gild tilboð að nafnvirði 12,195 milljarðar króna. Ákveðið var að taka tilboðum í eftirtalin íbúðabréf:

HFF150434 að nafnvirði 1,925 milljarður króna, vegin ávöxtunarkrafa án  þóknunar er 4,13%

HFF150644 að nafnvirði 1,575 milljarður króna, vegin ávöxtunarkrafa án þóknunar er 4,13%