Framkvæmdir eru hafnar við 8.113 íbúðir á landinu öllu, sem er 35% aukning frá sama tíma í fyrra. Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins og HMS voru íbúðir í byggingu 7.260 í mars síðastliðnum og 6.001 í september í fyrra.

„Mikil aukning er á fjölda íbúða í byggingu á framvindustigi 1 þar sem íbúðum fjölgaði um rúmlega 39% frá síðustu talningu sem gefur til kynna að mikið af nýjum verkefnum fóru af stað á milli talninga,“ segir í skýrslunni.

Sökum þess að fjölgunin er að mestu á fyrstu framvindustigum mun því taka nokkurn tíma fyrir hana að skila sér út á markaðinn sem fullbúnar íbúðir.

HMS og SI áætla að 1.229 nýjar íbúðir komi á markað á landinu öllu það sem eftir er á þessu ári og 3.169 árið 2023. Þá gera HMS og SI ráð fyrir að 3.206 af þeim íbúðum sem nú eru í byggingu verði fullbúnar árið 2024.

Fullbúnum íbúðum fjölgi á næstu misserum

Á höfuðborgarsvæðinu eru nú 5.696 íbúðir í byggingu. Höfuðborgarsvæðið er með 70,2% af öllum íbúðum í byggingu samanborið við 70,7% í mars síðastliðnum.

Ef framvindustig eitt er undanskilið eru 4.396 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, sem felur í sér 2,4% aukningu frá síðustu talningu. Til samanburðar voru nærri 5.000 íbúðir í byggingu þegar mest var á árunum 2018 og 2019. Um 91,8% af þessum íbúðum eru í fjölbýli.

„Einnig eru fleiri íbúðir nú á seinni framvindustigum (fokhelt og lengra komið) miðað við síðustu talningu í mars sl. en það gefur til kynna að fullbúnum íbúðum gæti fjölgað á næstu misserum.“

Reykjavík situr eftir

Í skýrslu HMS er vakin athygli á að flestar íbúðir í byggingu eru á svæðinu „Annað á höfuðborgarsvæði“ sem inniheldur öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan Reykjavíkurborg. Í síðustu talningum hefur Reykjavíkurborg verið með flestar íbúðir í byggingu þar til nú.

Fram kemur að þessi mikla fjölgun annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eigi sér að miklu leyti stað á framvindustigi 1, þar sem þeim fjölgaði úr 230 í 960.

Mesta fjölgun íbúða í byggingu hefur átt sér stað í Hafnarfjarðarkaupstað þar sem íbúðum í byggingu hefur fjölgað um 559 frá því í mars eða um 69%. Þar á eftir kemur Sveitarfélagið Árborg með fjölgun upp á 187 íbúðir, eða um helmingsaukning, og í Kópavogsbæ með fjölgun upp á 105 íbúðir, sem samsvarar 12,7% aukningu.

Mynd tekin úr skýrslu HMS.
Mynd tekin úr skýrslu HMS.