Icelandair Group hyggst boða til hlutafjárútboðs á næstunni að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun.

Í tilkynningunni segir að forsenda þess að farið verði í hlutafjárútboð er að takist að tryggja samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma. Útboðið sé því háð því að viðræður við stéttarfélög starfsmanna skili árangri. Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun að unnið sé að því að endursemja við starfsmenn félagsins til að ná niður launakostnaði, sem sé hærri en hjá flestum keppinautum flugfélagsins.

Sjá einnig: Skorið niður hjá Icelandair

Þá standi einnig viðræður við birgja félagsins og fjármögnunaraðila samhliða viðræðunum við hluthafa. Icelandair hafi einnig verið í góðu sambandi við stjórnvöld.

Sem stendur sé flugáætlun félagsins innan við 10% af því sem til stóð og mikil óvissa sé um hvenær flugsamgöngur komist í samt horf á ný.

Tilkynning Icelandair í heild sinni:

Icelandair Group vinnur nú að því að styrkja bæði lausafjár- og eiginfjárstöðu félagsins sem og að tryggja samkeppnishæfni þess til framtíðar. Til að ná þessum markmiðum gerir félagið meðal annars ráð fyrir því að hefja hlutafjárútboð á næstunni. Forsendan fyrir hlutafjárútboði hjá félaginu er að tryggja samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma litið. Fyrirhugað útboð er því háð því að viðræður við stéttafélög skili árangri sem og að samþykki hluthafafundar liggi fyrir. Viðræður standa einnig yfir við aðra hagaðila, svo sem fjármögnunaraðila, flugvélaleigusala og birgja til að styrkja langtíma samkeppnishæfni félagsins enn frekar. Þá hefur félagið jafnframt verið í góðu sambandi við stjórnvöld í þessu ferli.

Icelandair hefur haldið uppi lágmarks flugsamgöngum til og frá landinu að undanförnu í samstarfi við stjórnvöld, bæði fyrir farþega og vöruflutninga, og er flugáætlun félagsins nú minni en 10% af þeirri áætlun sem gefin hafði verið út. Enn ríkir talsverð óvissa um hvenær ferðatakmörkunum verði aflétt og eftirspurn eftir flugi tekur aftur við sér. Félagið þarf að grípa til enn frekari aðgerða til að komast í gegnum þetta tímabil þar sem tekjur þess verða í lágmarki. Á sama tíma mun félagið tryggja þann sveigjanleika sem þarf til að bregðast hratt við um leið og breytingar verða á markaði og eftirspurn tekur við sér á ný.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er tvíþætt. Að koma félaginu í gegnum það ástand sem nú ríkir í heiminum og á sama tíma tryggja að við séum í sterkri stöðu og getum sótt fram af krafti þegar eftirspurn eftir flugi og ferðalögum fer að glæðast á ný. Til að geta nýtt þau framtíðartækifæri sem munu gefast og tryggja aðkomu fjármögnunaraðila að Icelandair Group til framtíðar, er nauðsynlegt að félagið sé samkeppnishæft á alþjóðamarkaði til lengri tíma. Ég hef fulla trú á framtíð Íslands sem ferðamannalands, að landið verði áfram eftirsóttur áfangastaður og jafnframt mikilvæg tengimiðstöð alþjóðaflugs milli Evrópu og Norður Ameríku. Icelandair Group mun leggja sitt á vogarskálarnar að svo verði áfram þegar markaðir opnast á ný og þannig styðja við endurreisn ferðaþjónustunnar og um leið íslenska hagkerfisins.“