„Á þessum tímapunkti er reksturinn heilbrigður.“ Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group á afkomufundi félagsins vegna uppgjörs annars fjórðungs, sem lauk nú fyrir stuttu.

Á fundinum kom meðal annars fram að stærsta félag samstæðunnar, Icelandair, hefur verið að grípa til aðgerða vegna mjög hækkandi eldsneytisverðs og væntinga um minni eftirspurn. Hefur það verið gert með því hugarfari að árangur félagsins verði ásættanlegur.

Eins og greint var frá í gær var heildarvelta Icelandair Group á öðrum ársfjórðungi þessa árs 29 milljarðar króna, sem er tæp 80% aukning sé miðað við sama tímabil í fyrra. Á uppgjörsfundinum kom fram að veiking krónunnar ætti sinn þátt í þessari veltuaukningu félagsins. Þá var hagnaður fyrir skatta og afskriftir 1,9 milljarðar króna, töluvert umfram spár greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir 1,2 milljarða hagnaði fyrir skatta og afskriftir. Hagnaður eftir skatta var 395 milljónir króna.

EBITDA fyrstu sex mánuði ársins var 998 milljónir íslenskra króna, samanborið við 1,2 milljarð fyrstu sex mánuði ársins 2007. Björgólfur segir að grunnreksturinn sé sterkari nú en í fyrra og þessi 20% EBITDA lækkun á milli ára komi til vegna þess að í tölum í fyrra sé innifalinn söluhagnaður af flugvél fyrir 1,2 milljarð króna. Sé sá söluhagnaður tekinn út er því um hækkun að ræða á milli ára.

Hækkun olíuverðs hefur mikil áhrif á rekstur flugfélaga. „Við viljum draga athygli að gríðarlegri aukningu á olíuverði,“ segir Björgólfur Jóhannsson um áhrif hækkandi olíuverðs á rekstur félagsins, en olíukostnaður jókst um 500 milljónir á öðrum fjórðungi.

Gera ráð fyrir samdrætti í eftirspurn

Icelandair er stærsta félag samstæðunnar og hefur félagið þurft að grípa til hagræðingaraðgerða vegna væntinga um minnkandi eftirspurn og aukins olíukostnaðar. „Áhrif aðgerðanna sem boðaðar voru í júní eru ekki byrjaðar að hafa áhrif á uppgjör félagsins“ segir Björgólfur um þær hagræðingaraðgerðir og uppsagnir sem gripið var til í júní mánuði þessa árs og vöktu mikla athygli. 330 manns var sagt upp hjá félaginu og munu þær uppsagnir hafa áhrif inn í næstu fjórðunga. „Við erum að skoða frekari hagræðingarmöguleika, við ætlum að stýra okkur í gegnum það öldurót sem nú er“ segir Björgólfur um núverandi markaðsaðstæður. Gert hefur verið ráð fyrir að eftirspurn hjá Icelandair muni dragast saman um 14% með haustinu og framboð hefur verið lagað að því.

Á fundinum kom einnig fram að peningaleg staða félagsins sé í hámarki og að eigið fé sé að styrkjast, m.a. vegna veikingar krónunnar. Forstjórinn var spurður á fundinum hvort handbært fé verði notað til þess að greiða niður skuldir. „Við þurfum að hafa þessa lausafjárstöðu uppi fyrir haustið, við notum hana ekki til að greiða niður skuldir,“ segir Björgólfur.

Um framhaldið segir Björgólfur Jóhannsson: „Í þrengingum koma upp tækifæri og við munum horfa til þeirra. Við stefnum hins vegar ekki að stækkunum á næstunni.“

Nánar verður fjallað um uppgjörið í Viðskiptablaðinu á morgun.