*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 25. janúar 2021 16:22

Icelandair og Arion leiddu lækkanir

Hlutabréfamarkaðurinn var nánast allur rauður í dag, en mestu viðskiptin voru með félögin tvö sem lækkuðu mest.

Ritstjórn

Einungis eitt félag hækkaði á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í viðskiptum dagsins, Origo, sem hækkaði um 0,13%, upp í 40 krónur í þó ekki nema 100 þúsund króna viðskiptum.

Öll önnur félög á aðalmarkaði, utan tveggja sem stóðu í stað, lækkuðu í kauphöllinni í dag, og lækkaði Úrvalsvísitalan um 1,87%, niður í 2.622,66 stig í 1,7 milljarða viðskiptum á hlutabréfamarkaði. Lokastaða vísitölunnar hefur ekki verið lægri síðan 12. janúar þegar hún var 2.618,14 stig.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun leiddu Icelandair og Arion banki lækkanir dagsins, en í báðum tilvikum dró eilítið úr lækkununum þegar á leið daginn, en jafnframt voru mestu viðskiptin með bréf félaganna tveggja í dag. Þannig lækkaði gengi Icelandair um 4,48%, niður í 1,60 krónur í næst mestu viðskiptum dagsins eða fyrir 254,5 milljónir króna.

Gengi Arion banka lækkaði næst mest, eða um 4,23%, niður í 95 krónur, í mestu viðskiptum dagsins með bréf í einu félagi eða fyrir 287 milljónir króna. Stærsti hluthafi félagsins, Taconic Capital Management hefur boðið 10% eignarhlut í bankanum til sölu en fjárfestar hafa til klukkan 18 á morgun til að bjóða í hlutinn.

Þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi voru svo með bréf Eikar fasteignafélags, eða fyrir 238 milljónir króna, og fór gengi bréfanna niður í í 9,49 krónur eftir 1,09% lækkun bréfanna.

Íslenska krónan veiktist á móti öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag utan evrunnar sem stóð í stað í 157,52 króna sölugengi, dönsku krónunnar sem einnig stóð í stað í 21,174 króna sölugengi, og norsku krónunnar sem veiktist um 0,40% á móti þeirri íslensku. Fæst nú hver norsk króna á 15,179 króna sölugengi.

Þannig styrktist Bandaríkjadalur um 0,45% á móti íslensku krónunni, og fæst hann nú á 129,95 króna sölugengi, en breska pundið styrktist um 0,34% og fæst það nú á 177,54 króna sölugengi. Mest var þó styrking japanska jensins, eða um 0,39%, í 1,2515 króna sölugengi.