*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 1. nóvember 2019 17:05

Icelandair upp um 17,5% í vikunni

Vandræðadagur að baki í Kauphöllinni en allar tölur grænnar og Úrvalsvísitalan brýtur 2.000 stiga múrinn.

Ritstjórn
Kauphöll Íslands efst á Laugarvegi.
Haraldur Guðjónsson

Tæknilegir örðugleikar settu í dag stórt strik í viðskiptareikninginn í Kauphöllinn, ekki eingöngu hér á landi heldur á öllum mörkuðum Nasdaq á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Mikill kraftur var í viðskiptum með hlutabréf við opnun markaða enda birtu mörg félög árshlutauppgjör sín eftir lokun markaða í gær. Klukkutíma síðar var markaðinum lokað og lágu viðskipti niðri í nær allan dag að fráskildum nokkrum mínútum í hádeginu og tæpum hálftíma rétt fyrir hefðbundinn lokunartíma kl. 16. 

Þrátt fyrir þetta var skiptu hlutabréf fyrir 2,2 milljarða króna um hendur í dag og hækkuðu öll 18 félög sem höndlað var með í verði. Þá braut Úrvalsvísitalan 2.000 stiga múrinn á ný en hún hækkaði um tæpt 1,5% og var skráð 2007 stig við lok dags. 

Mest hækkaði Icelandair eða um 7,8% í viðskiptum fyrir 106 milljónir króna. Icelandair birti níu mánaða uppgjör sitt í gærkveldi og jákvæða afkomuviðvörun í upphafi vikunnar og hafa bréf félagsins hækkað um rúm 17% í vikunni. Sjóvá birti sömuleiðis uppgjör sitt í gær en félagið hækkaði í dag um 5.3% í viðskiptum fyrir 123 milljónir króna. Sömu sögu er að segja af Vátryggingafélag Íslands sem hækkaði um 4,5% í viðskiptum fyrir 137 milljónir króna. 

Engin bréf lækkuðu verði, en mikil viðskipti voru með hluti í smásölusamstæðunum Högum og Festi. Bréf Haga hækkuðu um tæpt 1,5% í viðskiptum fyrir 419 milljónir króna og bréf í  Festi hækkuðu um 2,5% í viðskiptum fyrir 395 milljónir króna. 

Stikkorð: Kauphöll Íslands