Stjórnvöld hafa í dag sent EFTA-dómstólnum gagnsvör í Icesave-málinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Meðal þess sem fram kemur í svarinu er að ESA hafi afbakað málsvörn Íslands og vanrækt að svara þeim efnislegu rökum sem Ísland hafi sett fram. Þá geri ESA enga tilraun til að andmæla staðreyndum sem Ísland hafi sett fram.

Slíkar staðreyndir varði til dæmis efnahagslegar afleiðir ríkisábyrgðar á innistæðutryggingakerfum við kerfishrun. Segir í svarinu að ESA hafi ekki andmælt því að umfang hinnar undirliggjandi áhættu af innistæðutryggingakerfum myndi vera um 83% af landsframleiðslu ríkja ESB ef sama regla ætti að gilda alls staðar. Þá hafi því ekki verið andmælt að ekkert innistæðukerfi í Evrópu hefði ráðið við kerfishrun. Að mati íslenskra stjórnvalda getur það ekki verið brot á skyldu ríkis þegar hið óumflýjanlega gerist.

Í svarinu er einnig bent á mótsagnir í málatilbúnaði ESA.

Með svörunum í dag er lokið annarri umferð í skriflegum hluta málflutnings fyrir dómstólnum. Frestur annarra EFTA-ríkja og aðildarríkja ESB til að taka þátt í meðferð málsins með skriflegum athugasemdum rennur á enda þriðjudaginn 15. maí næstkomandi. Þá hefur EFTA-dómstóllinn heimilað meðalgöngu framkvæmdastjórnar ESB og veitt henni frest til 24 maí næstkomandi til að skila greinargerð meðalgönguaðila.

Gert er ráð fyrir að Ísland fái í framhaldinu tækifæri til að svara þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Lesa má gagnsvör stjórnvalda í heild sinni hér .