Alþjóðaorkumálastofnunin segir að olíueftirspurn muni að öllum líkindum vera áfram stöðug þrátt fyrir umrót á fjármálamörkuðum undanfarið og því ættu OPEC-ríkin að auka framleiðslu til að lækka olíuverð.

William Ramsey, aðstoðarforstjóri Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (International Energy Agency) segir að 70 Bandaríkjadalir fyrir olíufatið séu of hátt verð og að það ógni stöðugleika alþjóðaefnahagsins.

Yfirmaður ráðherraráðs OPEC-ríkjanna, Abdalla el-Badri, gaf nýverið til kynna að ólíklegt væri að samtökin myndu samþykkja að auka framleiðslu sína þegar ráðherrar þeirra hittust í Vínarborg þann 11. september næstkomandi. "Það er ekki hægt að sannfæra nein aðildarríki um að auka við hráolíuframleiðslu, vegna þess að við eigum nóg til af hráolíu," sagði hann í viðtali við Bloomberg fréttastofuna. Hann sagði þá að ef aðildarríkin samþykktu ekki að auka framleiðslu sína í næsta mánuði, þá gætu þau gert það þegar ráðherrarnir hittust næst, þann 5. desember. Hann sagði jafnframt að efnahagshorfur kynnu að verða skýrari þá.

Olíuverð féll lítillega á þriðjudaginn í kjölfar áhyggja um niðursveiflu í alþjóðaefnahagnum, en hráolíufatið í Bandaríkjunum lækkaði um 60 sent, niður í 71,37 Bandaríkjadali í morgunviðskiptum í New York. Áður en áhyggjur af ástandi á húsnæðislánamarkaði í Bandaríkjunum náðu hámarki höfðu þær þjóðir sem neyta hvað mest af olíu vonast til að OPEC-ríkin myndu auka framleiðslu sína í næsta mánuði.

Aðildarríkin hafa hinsvegar áhyggjur af því að minnkandi hagvöxtur í heiminum hafi áhrif á olíueftirspurn og að olíuverð falli, auki þau framleiðslu sína.