*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Fólk 17. júní 2020 09:32

Ingibjörg nýr formaður FEB

Ingibjörg Sverrisdóttir var kos­in formaður Félags eldri borgara í Reykja­vík og nágrenni.

Ritstjórn
Ingibjörg Sverrisdóttir var kos­in formaður Félags eldri borgara í Reykja­vík og nágrenni.

Ingibjörg Sverrisdóttir var kos­in formaður Félags eldri borgara í Reykja­vík og nágrenni með yfirburðum á aðal­fundi fé­lags­ins í dag, sem haldinn var á Hótel Sögu. Frá­far­andi formaður, Ellert B. Schram, gaf ekki kost á sér til end­ur­kjörs.

Þeir Haukur Arnþórsson og Borgþór Kjærnested voru einnig í framboði til formanns. Fram­boð Ingibjargar hlaut 262 at­kvæði eða 62% at­kvæða á meðan fram­boð Hauks Arnþórssonar hlaut 131 at­kvæði eða 30%. Þá hlaut framboð Borgþórs Kjærnested 29 atkvæði eða 6,8%. Alls greiddu 423 atkvæði á fund­in­um en eitt at­kvæði var autt og ógilt.

„Kjör eldri borgara eiga hug minn allan og er ég bæði auðmjúk og þakklát fyrir það mikla traust sem mér var sýnt á fundinum í dag. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í baráttunni framundan fyrir bættum lífsgæðum eldra fólks,” segir Ingibjörg.

Haft var eftir Ingibjörgu í framboðsræðu hennar á fundinum að hennar áherslumál sneru að skerðingum og kjaramálum, húsnæðismálum, hjúkrunarheimilum og heimilisaðstoð

„Hópur eldri borgara býr svo sannarlega ekki við góð kjör. Kjaramál og skerðingar taka mikið rými í umræðunni og sérlega þessa dagana vegna uppgjörs frá Tryggingastofnun ríkisins sem barst um sl. mánaðarmót. Þetta þekkið þið flest, sem eruð hér inni. Mín áherslumál snúa að skerðingum og kjaramálum, húsnæðismálum, hjúkrunarheimilum og heimilisaðstoð,“ sagði Ingibjörg m.a. í ræðu sinni.

Ingibjörg er fædd í Reykjavík 24. mars 1947. Hún ólst upp í Reykjavík og Vestmannaeyjum en hún hefur starfað bæði erlendis og hérlendis.  Hún starfaði síðast hjá Air Atlanta áður en hún fór á eftirlaun.

Ingibjörg stundaði tungumálanám í Þýskalandi og Spáni á yngri árum og á fullorðinsárum við Menntaskólann í Hamrahlíð og síðar við Háskóla Íslands í ferðamálafræðum. Hún hefur setið ótal ráðstefnur og endurmenntunarnámskeið í ýmsum greinum í tengslum við störf sín hverju sinni. Þá hefur Ingibjörg sinnt kennslu í þremur ferðamálaskólum hérlendis og kennt verðandi ferðaráðgjöfum.

Stikkorð: FEB