Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins ræðir Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, nýja fjarheilbrigðisþjónustulausn sem Öryggismiðstöðin mun brátt innleiða á íslenskan markað. Lausnin getur að sögn forstjórans sparað heilbrigðiskerfinu gífurlegan kostnað og aukið starfsöryggi heilbrigðisstarfsfólks, auk þess að bæta þjónustu við sjúklinga.

Fjarheilbrigðisþjónustulausnin er þó ekki eina nýjungin sem Öryggismiðstöðin er með í startholunum. „Við höfum í þó nokkurn tíma unnið að þremur lausnum sem gætu orðið mjög stór hluti af fyrirtækinu. Hugmyndirnar að þessum þremur lausnum kviknuðu í Covid þegar við fórum að skoða hvernig við vildum takast á við þá áskorun sem faraldurinn hafði í för með sér. Fókusinn okkar snýr mikið að ferðaþjónustu, Keflavíkurflugvelli, umferðarmálum og heilbrigðiskerfinu. Við erum að koma fram með lausnir í öllum þessum geirum sem eru mjög spennandi,“ segir Ragnar.

Á næstu vikum mun félagið byrja að bjóða upp á þjónustu sem hefur fengið nafnið „Bagdrop“, en um er að ræða farangursþjónustu fyrir ferðalanga. „Við erum að fara bjóða fólki upp á að við sækjum töskurnar þeirra heim að dyrum þegar það er að fara í ferðalag erlendis. Svo munu viðskiptavinir einnig hafa möguleika á að skila töskunum af sér til okkar á BSÍ. Við sjáum svo um að innrita farangurinn fyrir viðskiptavini. Þeir geta því sofið lengur og farið beint í vopnaleitina við komuna í Leifsstöð, í stað þess að eyða tíma í langri röð til að innrita farangur í brottfararsal.“ Fyrst um sinn verður þjónustan í boði fyrir farþega á leið í Evrópuflug á vegum Icelandair. Ragnar reiknar með að þjónustan muni einnig standa til boða í Ameríkuflugum félagsins, sem og fyrir flugfarþega Play, áður en langt um líður.

Þá hefur Öryggismiðstöðin sett á fót dótturfélagið Green Parking. Félagið sérhæfir sig í að setja upp tæknilausnir, reka bílastæði og sjá um innheimtu bílastæðagjalda fyrir fasteignaeigendur. „Þetta eru öflugar hugbúnaðarlausnir sem notast við myndavélagreiningar til að lesa af númeraplötum og því þarf ekki að setja upp bómuhlið eða neitt slíkt. Fólk keyrir því bara inn á bílastæðin og greiðir fyrir stæðið í smáforritum Parka og Easypark eða við greiðsluvél. Við höfum sett upp lausnina í öllum helstu bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar og á þremur stöðum úti á landi. Við hófum einnig að sjá um rekstur bílastæða Landspítala á dögunum. Það eru fjölmörg tækifæri til staðar sem tengjast þessari þjónustu og eitt þeirra er að reka rafhleðslustöðvar við bílastæðin.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.