Íslandsbanki hefur fengið bankaleyfi frá fjármálaráðuneytinu í Lúxemborg. Tilgangurinn með því er að víkka út starfsemina, þar með talið alþjóðlega einkabankaþjónustu og eignastýringu, og sníða þjónustuna að eignamiklum einstaklingum og fyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að bankinn taki til starfa á vormánuðum 2005. Allan Strand Olesen, sem veitt hefur útibúinu í Lúxemborg forstöðu, mun stýra hinum nýja banka.

Íslandsbanki í Lúxemborg býður millibankaþjónustu og aðra tengda þjónustu til smárra og miðlungsstórra banka á Norðurlöndum. Allt frá stofnun í júní 2003 hefur útibúið einbeitt sér að því að byggja upp traust samband við banka á því svæði. Hópur sérfræðinga veitir norrænum lántakendum í ýmsum atvinnugreinum lánafyrirgreiðslu og ráðgjöf, einkum á sviði fasteignaviðskipta. Í lok ársins 2004 var útlán Íslandsbanka í Lúxemborg að jafnvirði 30 milljarða íslenskra króna og hafði stækkað um 20 milljarða á árinu.