Sérfræðingar úr Greiningu Íslandsbanka ásamt þjónustufulltrúum verða með ráðgjöf til almennings varðandi þá ólíku kosti sem bjóðast í húsnæðislánum í Þjónustuveri Íslandsbanka næstu þrjú kvöld, frá þriðjudagskvöldi til fimmtudagskvölds, frá kl. 18 til 22, í síma 440-4000.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemurfram að það er von Íslandsbanka að það komi sér vel fyrir almenning að geta nýtt kvöldin til að sækja sér ráðgjöf um hvernig finna megi hagstæðar leiðir í húsnæðislánum, en á daginn getur almenningur fengið ráðgjöf og úrlausn mála í útibúum Íslandsbanka.

Íslandsbanki býður húsnæðislán með 4,4% verðtryggðum vöxtum og hófst afgreiðsla lánanna í dag, en tekið var á móti umsóknum í síðustu viku. Auk húsnæðilána með föstum vöxtum býður Íslandsbanki upp á fjölbreytt úrval húsnæðislána í innlendri og erlendri mynt.

"Samanburður á húsnæðislánum er flókinn og útreikningur á greiðslubyrði vefst fyrir mörgum, jafnframt því sem fjármögnun fasteigna felur yfirleitt í sér stærsta útgjaldalið í rekstri hvers heimilis. Því er mikilvægt að almenningur ígrundi vel þá kosti sem standa til boða. Þar sem aðstæður hvers lántakanda eru einstakar verður boðið upp á þessa persónulegu ráðgjafaþjónustu sérfræðinga Greiningar Íslandsbanka og þjónustufulltrúa. Búast má við nokkru álagi, en öllum verður svarað. Einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir í tölvupósti á póstfangið [email protected]," segir í tilkynningu Íslandsbanka.

Þar kemur einnig fram að Íslandsbanki vill árétta að bankinn veitir húsnæðislán sem nema allt að 80% af markaðsvirði húsnæðis um allt land og hafa verið veitt slík lán í öllum útibúum bankans um allt land. Þetta 80% viðmið hefur gilt allt frá því um síðastliðin áramót þegar Íslandsbanki tók frumkvæði í því að veita óverðtryggð húsnæðislán í íslenskum krónum og erlendri mynt.