Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Yucaipa hefur í gegnum eitt félaga sinna keypt verslunarkeðjuna Fresh & Easy í Bandaríkjunum. Þetta er útrásarverkefni bresku verslunarinnar Tesco vestanhafs sem ekki gekk vel. Yucaipa greiðir ekkert fyrir reksturinn heldur yfirtekur skuldir sem á honum hvíldu, að því er fram kemur í umfjöllun bandaríska dagblaðsins The Los Angeles Times um viðskiptin. Blaðið segir Tesco koma illa út úr viðskiptunum enda fær Yucaipa 235 milljóna dala meðgjöf frá Tesco. Það gera eina 28 milljarða íslenskra króna. Til viðbótar fylgi lán sem Tesco tók í tengslum við mislukkaða útrásarverkefnið sem færist yfir til YFE Holdings Inc, dótturfélags Yucaipa.

Ron nokkur Burkle er stjórnarformaður Yucaipa. Hann hefur verið á lista yfir ríkustu menn heims á lista Forbes. Yucaipa er með stærstu hluthöfum Eimskips en samkvæmt hluthafaskrá á samanlagðan 25,3% hlut í skipaflutningafélaginu í gegnum félögin Yucaipa American Alliance Fund II og Yucaipa American Alliance (Parallel). Í krafti hlutafjáreignarinnar settist Burkle í stjórn Eimskips á vordögum 2011.

Tesco réðst í útrásina árið 2007 og eru verslanir Fresh & Easy 150 talsins. Los Angeles Times segir Tesco vart hafa getað valið verra ár til stofnunar nýrra verslana enda hafi fjármálakreppan tekið að bíta um svipað leyti. Í fyrra þurfti Tesco að afskrifa 1,17 milljarða punda, jafnvirði 223 milljarða íslenskra króna, vegna taprekstrar í Bandaríkjunum. Það gerði væntingar um hagnað hjá Tesco að engu.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Úr einni af verslunum Tesco.