Íslendingar verða á milli 372.000 og 513.000 á árinu 2065 samkvæmt há- og lággildi mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, en spáin nær til áranna 2015 til 2065.. Samkvæmt miðspá Hagstofunnar munu Íslendingar verða 437 þúsund við lok tímabilsins.

Samkvæmt spánni mun meðalaldur halda áfram að lengjast, nýfæddar stúlkur árið 2015 geta vænst þess að verða 83,5 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,5 ára. Fjöldi aðfluttra verður hærri en fjöldi brottfluttra, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslendingar sem flytja frá landinu verða áfram fleiri en þeir sem flytja til landsins.

Gert er ráð fyrir því að breytingar verði á samsetningu mannfjöldans. Hlutfall 65 ára og eldri fer yfir 20% af heildarmannfjölda árið 2035 og yfir 25% árið 2062. Frá árinu 2050 mun fólk á vinnualdri (20-65 ára) þurfa að styðja við hlutfallslega fleira eldra fólk en yngra.