Fataverslun hefur í síauknum mæli verið að færast yfir á netið og ríkir mikil samkeppni á þeim markaði. Meðal fyrirtækja sem fatanetverslunin Boozt keppir við á markaðnum eru risar á borð við Amazon og Asos. Hermann Haraldsson, forstjóri Boozt, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins , segir félagið skera sig úr frá samkeppnisaðilum með því að einblína á Norðurlöndin, en 90% af veltu félagsins fellur til á Norðurlöndunum.

„Við erum að keppa við mjög stór fyrirtæki og því þurfum við að gæta þess að vera alltaf á tánum. Við einblínum aðallega á Norðurlöndin og viljum vera stærsta fyrirtækið í netfataverslun á þeim markaði. Þar af leiðandi leggjum við áherslu á að úrvalið í verslun okkar sé sniðið að neytendum á Norðurlöndum. Þetta endurspeglast einnig vel í því að 60-65% af veltu Boozt eru tilkomin vegna viðskipta með vörur vörumerkja frá Norðurlöndunum."

Í byrjun júní á síðasta ári hóf Boozt að selja vörur til Íslands. Hermann segir viðtökur Íslendinga hafa farið langt fram úr væntingum. Í greiningu markaðsvaktar Meniga á markaðshlutdeild meðal valinna netverslana, má sjá að það tók Boozt einungis tvo mánuði að ná yfir 50% markaðshlutdeild og velta Asos úr sessi, sem áður hafði mikla yfirburði. Spurður um umfang sölu Boozt hér á landi, vill Hermann ekki gefa upp nákvæma tölu, en segir söluna hafa hlaupið á hundruð milljónum króna.

Samkvæmt frétt Innherja frá því í lok nóvember sl. hafði Boozt selt Íslendingum fyrir um 900 milljónir króna síðan í júlí. Miðað við það hefur salan hér á landi verið í kringum 180 milljónir króna á mánuði að jafnaði. Ef salan hefur haldið svipuðum dampi síðan, má gróflega áætla að heildarsala til Íslendinga nemi tæplega 1,3 milljörðum króna. Aftur á móti er ekki tekið tillit til jólavertíðarinnar þar, svo leiða má líkur að því að fjárhæðin sé enn hærri. „Ég hafði lengi talað fyrir því að fara inn á íslenska markaðinn við misgóðar undirtektir vegna smæðar markaðarins. Að lokum fékk ég það þó í gegn að koma til Íslands."

Nánar er rætt við Hermann í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .