Hið íslenska Videntifier Technologies ehf. hefur hafið samstarf við Forensic Pathways Ltd. frá Bretlandi. Fyrirtækin hafa bæði getið sér gott orð fyrir nýsköpun á markaði fyrir stafrænar rannsóknartækni fyrir lögreglu samkvæmt fréttatilkynningu frá Videntifier Technologies. Samstarfið felur í sér mikil tækifæri, og sameinar hátæknilausnir fyrirtækjanna til að berjast gegn misnotkun barna og hryðjuverkum.

Nýja fyrirtækið mun hafa bækistöðvar í London, á Íslandi, í Ástralíu, í Asíu og norður-Ameríku. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og breski sendiherrann á Íslandi, Ian Whitting, voru viðstaddir undirritun samstarfsyfirlýsingar fyrirtækjanna í dag, og undirstrikuðu með nærveru sinni mikilvægi samstarfsins á alþjóðlega vísu. Bæði fyrirtækin hafa yfir að ráða háþróaðri tækni sem þekkir stafrænt vídeóefni og ljósmyndir sjálfvirkt, til dæmis efni sem sýnir ofbeldi gegn börnum eða tengist hryðjuverkastarfsemi.

“Lögregla starfar ennþá hver í sínu landi, svæðisbundið - deildir í mismunandi löndum eru einangraðar hver frá annarri, en glæpamenn eru gjarnan mjög vel tengdir alþjóðlega”, segir Herwig Lejsek, forstjóri Videntifier Technologies. “Þessi einangrun lögreglunnar stafar af skorti á verkfærum til að að greina og rannsaka mikið magn af margmiðlunarefni”.

Samstarfið er sprottið úr fyrri samvinnu milli Videntifier Technologies og Forensic Pathways, sem hefur meðal annars skilað sér í sterkri sölu í Bretlandi í byrjun árs 2012.