*

föstudagur, 5. mars 2021
Innlent 29. september 2020 17:56

Gjaldþrot hjá Íslensku auglýsingastofunni

Rekstur Íslensku auglýsingastofunnar mun leggjast af næstu mánaðamót. Icelandair var um áratuga skeið stærsti viðskiptavinur félagsins.

Ritstjórn
Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar.
Aðsend mynd

Íslenska auglýsingastofan mun hætta rekstri um mánaðamótin eftir 32 ára starfsemi. Undanfarnir mánuðir og misseri hafa reynst rekstri félagsins erfiðir en um síðustu áramót lauk langvarandi samstarfi auglýsingastofunnar við Icelandair. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Sjá einnig: Hagnaðarsamdráttur hjá Íslensku

Áhrif kórónufaraldursins juku enn við samdráttinn og ekki sér félagið fyrir endann á því. „Jafnvel þótt hagrætt hafi verið í rekstri af krafti hefur því miður enn ekki tekist að afla nægilegra nýrra verkefna til að mæta þessu tekjufalli,“ segir í tilkynningunni.

Sjá einnig: Auglýsingastofur há varnarbaráttu

„Að vel ígrunduðu máli hafa eigendur félagsins því tekið þá þungbæru en um leið óhjákvæmilegu ákvörðun að láta hér staðar numið. Stjórn Íslensku auglýsingastofunnar ákvað því í dag að óska eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta frekar en að halda áfram taprekstri með tilheyrandi skuldasöfnun næstu mánuði og mögulega misseri.“