Íslenskir fjárfestar hafa verið nefndir til sögunnar sem hugsanlegir kaupendur að nokkrum niðursuðuverksmiðjum á fiski í Lettlandi að því er kemur fram í dagblaðinu Dienas bizness. Fjórar til fimm af 25 stærstu niðursuðuverksmiðjum Lettlands eru til sölu en erfiðleikar hafa verið í þessum geira samkvæmt frétt blaðsins.

Þar er haft eftir sjórnarformanni hlutafélagsins Brivais vilnis, Arnolds Babris, að nokkur félög í þessum geira séu að leita sér að kaupendum og hafi hans félag fengið tilboð frá nokkrum þeirra. Nefnir hann þar sérstaklega til fjárfesta á Íslandi og í Kanada. Þegar erfiðleikar hófust í þessum geira hefðu margir falast eftir fyrirtækjunum fyrir lágt verð en nú vonast þeir sem þar eru í rekstri eftir því að komast út úr kreppunni með eitthvert fé á milli handanna.

Sá hluti niðursuðuiðnaðarins sem vinnur með fisk hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarin ár. Samkvæmt upplýsingum frá samtökum fiskiðnaðarins í Lettlandi er líklegt að framleiðsla á niðursoðnum fisk dragist saman um 30% á þessu ári. Samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegsráðuneytinu dróust kaup Rússa á niðursoðnum fisk saman um 50% á fyrsta ársfjórðungi. samdrátturinn í niðursuðuiðnaðinum var 17% á fyrsta ársfjórðungi, 15.000 tonn voru framleidd og 14.100 seldust.