Íslenskir viðskiptamenn telja að reglur um vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna séu veruleg hindrun í vegi þess að þeir geti sent stjórnendur og fjárfesta til tímabundinna starfa í Bandaríkjunum, að sögn Martins Eyjólfssonar, sviðsstjóra viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra tók málið upp á fundi sínum með Condolezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í síðustu viku. Þar viðraði hún þær hugmyndir að Íslendingar gætu sótt um svonefndar E-1 eða E-2 vegabréfsáritanir sem ætlaðar eru viðskiptafólki og fjárfestum sem stunda viðskipti í Bandaríkjunum.

Martin er vongóður um að skriður hafi komist á málið og útilokar ekki að það verði leyst á næstu mánuðum.

Íslendingar standa verr að vígi í þessum málum heldur en til dæmis ríkisborgarar annarra Norðurlanda og flestra OECD-ríkjanna, segir Martin. Ríkisborgarar í um það bil áttatíu ríkjum geta sótt um aðgang að annað hvort E-1 eða E-2 vegabréfsáritunum, í flestum tilvikum að báðum þessum flokkum.

„Af þessum sökum hefur verið talsverður áhugi á því meðal íslenskra stjórnvalda að gera fjárfestingarsamning við Bandaríkin. Fyrstu þreifingar um gerð slíks samnings áttu sér stað fyrir allmörgum árum en eftir 11. september 2001 varð hins vegar hlé á samningaviðræðunum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir íslenskra stjórnvalda til þess að fá bandarísk stjórnvöld aftur að samningaborðinu hafa viðræður ekki hafist að nýju eftir þetta hlé.“

Áhugi á E-áritunum eykst

Martin bendir á að ríkisborgarar hér á landi hafi hingað til getað sótt um svonefndar L-áritanir – vegna starfa sinna á vegum íslenskra fyrirtækja í Bandaríkjunum. Eftir hryðjuverkaárásina árið 2001 hafi hins vegar orðið tímafrekara að afla slíkra áritana. Áhugi íslenskra fyrirtækja á því að fá E-áritanir hafi því aukist verulega.

„Rétt er að geta þess að hægt er að óska eftir flýtimeðferð þegar sótt er um L-vegabréfsáritanir fyrir stjórnendur fyrirtækja með starfsemi í Bandaríkjunum, en greiða þarf 1.000 dollara gjald fyrir slíka þjónustu.“

Martin bendir einnig á að stjórnendur íslenskra fyrirtækja sem starfa á Íslandi, en þurfa sökum viðskiptaumsvifa að heimsækja Bandaríkin margsinnis á ári hverju, geti sótt um einfalda vegabréfsáritun (B-1 eða B-2). Gildistími slíkra áritana er að jafnaði tíu ár. „Slíkar vegabréfsáritanir geta hentað fólki sem starfar á Íslandi en þarf sökum starfa sinna að heimsækja Bandaríkin margsinnis, t.d. vegna samningaviðræðna, fundarsetu eða til að rækta viðskiptatengsl.“

Þrátt fyrir þetta segir hann að íslenskt viðskiptalíf sitji ekki við sama borð og keppinautar þeirra frá þeim fjölmörgu ríkjum sem eigi kost á E-áritunum. „Ég er bjartsýnn á að hreyfing komist á málið eftir fund ráðherranna og er það von mín að það leysist á næstu mánuðum.“