Íslenskt félag, sem tengir skip um víða veröld við síma og internet, skiptir væntanlega um eigendur áður en um langt um líður. Um er að ræða stóran samruna tveggja risa, beggja vegna Atlantshafsins, þar sem íslenska félagið myndi fylgja með í kaupunum. Áætlað er að viðskiptin muni ganga í gegn á síðari hluta næsta árs.

Tilkynnt var um það í byrjun viku að bandaríski gervihnattarisinn Viasat Inc. hefði fest kaup á breska félaginu Inmarsat. Heildarvirði viðskiptanna er 7,3 milljarðar bandaríkjadala, andvirði 951 milljarðs íslenskra króna miðað við gengi dagsins, en greiðslan mun fara fram með afhendingu 850 milljóna dollara í reiðufé og yfirtöku 3,4 milljarða dollara skuldar. Í tilkynningu Viasat kemur fram að félagið hafi þegar tryggt sér 2,3 milljarða dollara til að fjármagna kaupin.

Þá munu eigendur Inmarsat fá um 37,5% hlut í Viasat í sinn hlut með útgáfu nýrra hluta gangi kaupin í gegn. Þess má til gamans geta að hefði dollarinn staðið í 137 krónum hefði verið hægt að tala um billjóna viðskipti, í krónum talið, án þess að um þýðingarvillu væri að ræða.

1,3 milljarða dollara söluhagnaður

Gengi bréfa í Viasat féll um rúm tíu prósent eftir að tilkynnt var um kaupin enda viðbúið að núverandi hlutir þynnist vegna viðskiptanna. Virði hlutarins sem hluthafar Inmarsat fengu féll því sem því nemur við það en miðað var við dagslokagengi Viasat síðastliðinn föstudag, það er 67 dollarar á hlut, þegar gengið var frá samningnum. Þrátt fyrir að samkomulagi hafi verið náð eru kaupin ekki enn gengin í gegn og verði það raunin að þau falli upp fyrir mun Viasat þurfa að greiða hluthöfum Inmarsat 200 milljónir dollara.

Bréf í Inmarsat voru áður skráð í kauphöll í Bretlandi en afskráð fyrir tveimur árum í kjölfar þess að fjárfestingasjóðirnir Apax og Warburg Pincus, auk tveggja kanadískra lífeyrissjóða, keyptu félagið á sex milljarða dollara.

Í gegnum tíðina hefur Viasat verið stórt í hernaðar- og fluggeiranum en Inmarsat stærra þegar kemur að tengingum gegnum gervihnött á hafi úti þótt vissulega hafi það líka þjónustað flugvélar. Viðbúið er að fæstir, utan þeirra sem nýta sér þjónustu þess, hafi heyrt um félagið en þó var það í fréttum árið 2014 í tengslum við hvarf MH370 flugs Malaysian Airlines. Það voru nefnilega gervihnettir Inmarsat sem námu síðustu sendingar vélarinnar áður en hún hvarf af ratsjám.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .