*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 12. apríl 2016 13:31

Ítreka andstöðu sína við fiskeldi

10.000 tonna framleiðsluleyfi jafnildir öllum eldisleyfum sem gefin hafa verið út í öllu Ísafjarðardjúpi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ferðamálasamtök Vestfjarða sendu í dag fá sér tilkynninu þar sem þau ítreka andstöðu sína við fiskeldi í Jökulfjörðum. Tilefnið er að nýlega var kynnt umsókn Arnarlax um 10.000 tonna eldisleyfi í sjó á þremur stöðum í Jökulfjörðum. Annarsvegar út af ströndinni milli Grunnavíkur og Flæðareyrar og hinsvegar friðlandsmegin, út af hlíðinni milli Hesteyrafjarðar og Veiðileysufjarðar. Þetta kemur fram á vef bb.is í dag.

Í ályktun stjórnar samtakanna segir að 10.000 tonna framleiðsluleyfi sé jafn mikið og öll eldisleyfi sem hafa verið gefin út í öllu Ísafjarðardjúpi og er svipuð framleiðsla og í tveimur stærstu fiskvinnslum við Djúp. 

Í ályktuninni segir: 
„Reglulega hafa komið upp hugmyndir um nýtingu Jökulfjarða til iðnaðarstarfsemi s.s. fiskeldis og þær hugmyndir sem nú eru fram komnar eru þar af leiðandi ekki nýjar. Þeir aðilar sem horfðu til svæðisins á sínum tíma hurfu frá því til að skapa sátt á milli ferðaþjónustu, landeigenda, náttúrunnar og fiskeldis. 

Hornstrandafriðlandið ásamt Jökulfjörðum er einn af burðarásum í ímynd Vestfjarða þar sem styrkleikinn er ósnortin náttúra, kyrrð og mögnuð mannlífssaga. Ferðamálasamtök Vestfjarða skora á stjórnvöld að vernda Jökulfirðina frá slíkum áformum og beita sér fyrir því að setja reglugerð þess efnis að fiskeldi þar verði óheimilt. 

Ferðaþjónar hafa sýnt fiskeldi í Ísafjarðardjúpi mikinn skilning og gera sér grein fyrir mikilvægi þess í atvinnu og verðmætasköpun á svæðinu. Nú er svo komið að fiskeldi er hafið eða er í undirbúningi í nánast öllum fjörðum við Ísafjarðardjúp og út af stórum hluta af Snæfjallaströnd. Ferðamálasamtökin telja þar af leiðandi mikilvægt að staldra við og klára skipulag og burðarþolsmælingar áður en lengra er haldið.“