Tryggingafélagið Folksam í Svíþjóð hefur rannsakað gögn um óhöpp þar sem einn bíll kemur við sögu allt frá árinu 1995 til ársins í fyrra. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að jeppar eru öruggari en fólksbílar, þökk sé þyngd þeirra.

Hins vegar velta jeppar 20% oftar en fólksbílar í slíkum óhöppum. Um leið bendir rannsóknin til þess að 40% meiri líkur eru á meiðslum þegar bíll veltur en í óhöppum þar sem bíll veltur ekki.

Folksam bendir á að þeir sem telji sig óhultari í jeppa en í venjulegum fólksbíl taki ekki inn í myndina þá auknu hættu sem er á því að jeppinn velti.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að draga má úr þeirri hættu að bílar velti um allt að 80% séu þeir búnir stöðugleikastýringu. Slíkur búnaður er enn mikilvægari í jeppa, sem velta oftar en venjulegir fólksbílar.

Hvergi í heiminum er hærra hlutfall bíla með stöðugleikastýringu en í Svíþjóð. Níu af hverjum tíu nýjum bílum eru með búnaðinn í staðalgerð.