Jörðin Fell í Austur-Skaftafellssýslu, sem meðal annars nær til austari helmings Jökulsárlóns, verður boðin upp þann 14. apríl. Þetta er niðurstaða Sýslumannsins á Suðurlandi, sem óskaði þar með gerðarbeiðendum í hag.

Eigendur Fells hafa átt í deilum undanfarin ár um uppbyggingu við lónið. Hluti eigenda hefur viljað halda jörðinni í óskiptri sameign, en fram kemur í úrskurði sýslumanns að dómskvaddur matsmaður telji jörðina óskiptanlega og að af þeim sökum beri að selja hana í heilu lagi.

Morgunblaðið greinir frá því að mikill áhugi sé á jörðinni og að meðal annars hafi erlendir aðilar á EES-svæðinu lýst áhuga sínum á kaupunum. Búist sé við því að jörðin verði seld á allt að tvo milljarða króna. Jörðin er 10.500 hektarar að stærð.

Haft er eftir Huldu Jónasdóttur, einum landeigenda og gerðarbeiðenda, að við þessa aðgerð muni ferðaþjónusta loksins geta blómstrað á þessari náttúruperlu. Mikill áhugi sé fyrir fjárfestingu og uppbyggingu á landinu.

Deilurnar um Fell hafa staðið yfir í langan tíma. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma var uppboð fyrirhugað á jörðinni í fyrra en fallið var frá uppboðinu.