Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, stjórnarformaður Iceland Resources, sem er í 100% eigu kanadíska fyrirtækisins St. Georges Platinum & Base metals Ltd. segir ekkert rask fylgja rannsóknum félagsins, en félagið hefur fengið leyfi til gullrannsókna á 1.013 ferkílómetra svæði á Tröllaskaga til fimm ára.

„Þetta eru bara jarðfræðingar á fæti, sem taka sýni úr berginu til að kortleggja með nákvæmari hætti jarðlögin á svæðinu,“ segir Vilhjálmur sem segir félagið þurfa framkvæmdarleyfi ef þeir hyggjast fara í boranir, en almennt vill hann meina að starfsemi félagsins muni fylgja lítið jarðrask.

„Gullið hér á landi er svokallað epithermal gull, sem þýðir að það er frekar mikið magn á litlu svæði, en þetta er yfirleitt í kringum kulnaðar eldstöðvar. Þormóðsdalurinn er þar þekktastur, en þar er magnið svona frá 15 til 45 grömm í hverju tonni, en til þess að það sé vinnanlegt þarf að finna svona 1 til 2 grömm í tonninu. Hérna á Íslandi myndi þó aldrei vera unnið nema það sé yfir 10 grömm í tonninu.“

Vilhjálmur segir félagið hafa kært til kærunefndar umhverfis- og skipulagsnefndar höfnun á því að gera tilraunaboranir í Þormóðsdal, en fyrir utan þessi tvö svæði á félagið einnig rannsóknarleyfi í kringum Vopnafjörð.

Íslendingar standa í forystu fleiri gulleitarfyrirtækja, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær er verðmæti gullforðans í námu fyrirtækisins Alopex Gold á Grænlandi talið allt að 160 milljarðar króna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .