Vefverslunin Heimkaup hóf í gær að dreifa bjór, léttvíni og öðru áfengi í heimsendingu, eins og Viðskiptablaðið greindi frá. Félagið dreifir vörunum í gegnum danska fyrirtækið Heimkaup ApS og hefur því bæst við í flóru þeirra sem selja áfengi á netinu hér á landi.

„Við gætum þess í hvívetna að vinna eftir þeim reglum sem gilda hverju sinni. Við höfum hvorki viljað hafa frumkvæðið að því að ögra kerfinu eða fara framhjá því, eins og þrír aðilar eru nú byrjaðir að gera,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa. Þar vitnar Gunnar til Heimkaups, Santewines og Nýju Vínbúðarinnar.

Hann segir það koma honum á óvart að söluaðilar geti sniðgengið lög og reglur með því að taka við greiðslum í gegnum erlend félög en afhenda vörur beint frá sömu birgjum og selja til ÁTVR. „Ef þú ert með vöru á lager á Íslandi og tekur á móti greiðslu í gegnum erlendan færsluhirði sem er með höfuðstöðvar erlendis, þá er þetta ekki erlend netverslun. Það getur til dæmis ekki verið að netverslun sé erlend þegar þú getur pantað og fengið afhent áfengi samdægurs.“

Hann veltir því fyrir sér hvort það sé leyfilegt að afhenda vöru á Íslandi með greiðslu í gegnum kortafyrirtæki erlendis, í stað þess að fá greitt í gegnum færsluhirðingarfélag á Íslandi sem borgar sína skatta og gjöld hérlendis. „Ég tel að það sé ekki eðlilegt. Ef svo væri, þá væru fleiri að gera það.“

Kallar eftir skýrum leikreglum

Frumvarp um að heimila smásölu innlendra vefverslana með áfengi, sem Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram í mars, náði ekki að ganga fyrir þinglok. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í mánuðinum að hann ætli að leggja fram sambærilegt frumvarp í haust. Enn ríki réttaróvissa í þessum efnum að hans mati.

Gunnar er á sama máli og kallar eftir því að stjórnvöld setji skýrar leikreglur og breyti fyrirkomulaginu í haust. „Ég taldi mjög líklegt að breyting á sölu með áfengi í gegnum netverslun mundi ná fram að ganga á vorþingi og með framtíðaráætlun um afléttingu einkasölu ríkisins. Það gerðist hinsvegar ekki en ég trúi ekki öðru en það verði veruleg breyting á strax þegar þing kemur saman í haust. Ég held að það sjái allir fáránleikann í þessu.“

Nettó selji áfengi á netinu

Samkaup rekur Nettó, Kjörbúðina, Krambúðina, Iceland og fleiri smávöruverslanir. Þannig var Nettó fyrsta lágvöruverslunin til að opna netverslun á Íslandi árið 2017.

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að Nettó hefji sölu áfengis í netverslun ef frumvarpið gangi í gegn svarar Gunnar því hiklaust játandi. „Alveg klárlega, fyrir mér yrði það spennandi fyrsta skref. Um leið og leikreglurnar verða skýrar og eftirspurnin er til staðar þá erum við tilbúin að hefja sölu áfengis á netinu.“

Hann segir að sama hvor leiðin verði farin sé mikilvægt að löggjafinn skerpi línurnar. Annað hvort verði sala áfengis leyfð hjá íslenskum vefverslunum, eða sett skýr mörk á að það sé ekki leyfilegt.

Áfengi hentug netvara

Hann segir að breytingar á löggjöfinni þurfi ekki að eiga sér stað á einni nóttu. Það taki tíma að breyta kerfinu smám saman. „Nú er búið að gefa smáframleiðendum heimild til að selja vörur yfir borðið sem eykur um leið samkeppni á markaðnum. Það sama á í raun við um netverslanir. Ef við skoðum löndin í kringum okkur er um 20-30% af sölu á áfengi að fara í gegnum netið. Það er bara jákvætt og skapar samkeppnisumhverfi þar sem keppt er um þjónustu, vöruúrval, afhendingu og verð.“

Hann segir það henta ágætlega að selja áfengi í gegnum vefverslun. Varan sé oftar en ekki þung og neytandinn tilbúinn að borga fyrir heimsendingu. Hann telur að með komandi kynslóðum muni almennum verslunum fækka og sérhæfðari verslunum fjölga. „Ég held að það yrði mjög hollt ef það kæmu sérverslanir með áfengi eins og við sjáum með kjöt og fisk. Viðskiptavinir vilja mismunandi tegundir en ekki bara ríkistegundina sem fáir ákveða.“

Hann bætir við að með því að gera núverandi fyrirkomulag frjálsara muni það leiða til fjölbreyttari markaðar. „Mín persónulega skoðun er sú að hið opinbera á ekki að vera að vasast í því að selja fólki áfengi.“