Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone, var valinn viðskiptafræðingur ársins af dómnefnd á vegum Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Greint var frá úrslitunum í hádeginu við hátíðlega athöfn á hótel Nordica. Það var Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, sem afhenti verðlaunin í fjarveru ráðherra sem var veðurteptur.

Í niðurstöðu dómnefndar segir:

"Það voru margir til kallaðir en einn útvalinn. Sá útvaldi hefur reynslu í viðskiptalífinu sem fyllir tæpa þrjá áratugi - þótt hann sé ungur enn. Hann hefur alla tíð verið sjálfstæður í sínum rekstri sem hefur snertiflöt við stóran hluta íslensku þjóðarinnar. Fyrir nokkrum árum lagði hann nýja framtíðarsýn fyrir fyrirtæki sitt og skýrri stefnu hefur verið fylgt síðan. Á þessum tíma hefur hann náð frábærum árangri með fyrirtæki sín og tekist að gera rekstur félaganna afar umfangsmikinn og til marks um það telur efnahagur fyrirtækja hans um 380 milljarðar íslenskra króna. Hann hefur verið umsvifamikill þegar hefur komið að kaupum á fyrirtækjum og samrunum, en jafnframt hefur hann skapað mikinn innri vöxt. Fyrirtækin sem eru í rekstri viðkomandi í dag eru með starfsemi á Íslandi, á Norðurlöndum, í Austur Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum. Uppbygging á viðskiptaveldi hans hefur verið með ólíkindum og árangur í rekstri og fjárfestingum hefur verið eftirtektarverður á alla mælikvarða."