Horn IV, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, hefur samið um kaup á 45% hlut í REA ehf. sem á íslensku flugafgreiðslufyrirtækin Airport Associates og SouthAir. Með kaupunum verður Horn IV stærsti einstaki hluthafi félagsins. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, að því er kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Landsbréfa.

Airport Associates, sem rekur almenna flugafgreiðsluþjónustu fyrir flugfélög á Keflavíkurflugvelli, hagnaðist um 258 milljónir árið 2022 samanborið við 82 milljónir árið áður. Tekjur félagsins meira en tvöfölduðust á milli ára og námu 4 milljörðum.

Í ársreikningi Airport Associates fyrir árið 2022 segir að starfsemin hafi færst í eðlilegra horf eftir veruleg áhrif Covid-faraldursins á félagið. Þá hafi starfsemi Play, eins stærsta viðskiptavinarins, aukist talsvert í fyrra ásamt því að aðrir viðskiptavinir félagsins juku umferð um Keflavíkurflugvöll. Félagið gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti í ár.

Skúli Skúlason og Guðbjörg Astrid Sk‎úladóttir áttu hvor um sig 47,5% hlut í Rea um síðustu áramót. Þá átti Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, 5% hlut í Rea. Skúli Skúlason er varaformaður stjórnar Play og einn stærsti hluthafi flugfélagsins með 4% hlut í gegnum félagið Fea ehf.

Skúli Skúlason
Skúli Skúlason
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Kaup Horns IV á kjölfestuhlut í REA ehf. er afar ánægjuleg staðfesting á þeirri vegferð sem eigendur og stjórnendur hafa unnið að frá stofnun félagsins. Við höfum alla tíð lagt mikla áherslu á tækni-, öryggis- og gæðamál í góðu samstarfi við þau fjölmörgu flugfélög sem við veitum þjónustu. Félagið nýtur trausts og hefur frá stofnun stuðlað að jákvæðri samkeppni á flugþjónustumarkaði. Við horfum því með björtum augum til framtíðar og hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar með nýjum hluthöfum,“ er haft eftir Sigþóri Kristni og Skúla í tilkynningunni.

Horn IV er 15 milljarða framtakssjóður sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða. Kaupin í REA eru fjórða fjárfesting sjóðsins sem hóf göngu sína árið 2021. Horn IV keypti 35% hlut í GoPro, 22% hlut í S4S og í 40% hlut í Eðalfangi í fyrra.

„Fyrirtækin eru innviðafélög og mikilvægur hlekkur í starfsemi Keflavíkurflugvallar. Félögin eru vel rekin með öfluga stjórnendur og afburða starfsfólk á öllum sviðum sem mun nýtast vel á vaxandi markaði sem er nátengdur íslenskri ferðaþjónustu. Við erum full tilhlökkunar að fá að koma að áframhaldandi uppbyggingu félaganna sem búa yfir sterkum innviðum og áratuga reynslu núverandi eigenda,“ segja fjárfestingastjórar Horns IV.