Kauphöllin í Dubai hefur lýst því yfir að hún verði nú fyrsta íslamska kauphöllin í heiminum, en markaðsaðilar telja að hér sé um að ræða tilraun til að lífga við markaðinn sem hefur verið í talsverðri lægð að undanförnu, segir í frétt Financial Times.

Kauphöllin Dubai Financial Market (DFM) mun endurskipuleggja kauphöllina þannig að hún fari eftir meginreglum íslamstrúar. Tilkynningin barst aðeins örfáum dögum fyrir fyrirhugað 30 milljarða krónu flot.

Margir fjárfestar í Dubai telja að breytingin sé gerð út frá markaðssjónarmiðum, fremur en út frá sjónarmiðum trúarbragða. Samkvæmt trúarsannfæringu íslam má ekki eiga viðskipti við fyrirtæki sem hafa svínakjöt, vopn, áfengi, tóbak eða vaxtatekjur sem sín aðalviðskipti. En DFM, sem er í eigu ríkisins, hefur hvort eð er ekki átt viðskipti við slík fyrirtæki, kauphöllin mun halda áfram að skrá hefðbundin fjármálafyrirtæki, en tekjur af hlutabréfaviðskiptum þeirra munu verða aðgreindar frá öðrum fyrirtækjum í kauphöllinni.

Vísitala DFM var hæst 1.267 í fyrra, en hafði fallið niður í 379 fyrr í vikunni. Greiningaraðilar telja að með breytingunum sé ætlunin að snúa þessum svartsýnismarkaði (e. bear market) við og ná til nýrra fjárfesta með "íslam" formerkinu. Greiningaraðilar í Dubai segja að "íslam" formerkið muni laða að fjölda fjárfesta og að það muni aðgreina kauphöllina frá samkeppnisaðilum.

Kauphöllin Dubai International Financial Exchange (DIFX), sem einnig er ríkisrekin, var stofnuð í fyrra en í síðustu viku tilkynnti kauphöllin að Deutsche Bank muni sjá um viðskiptavakt hennar, en viðskipti í kauphöllinni hafa verið óveruleg frá stofnun hennar. Talsmenn Deutsche Bank segja að með því að sjá um viðskiptavaktina muni traust fjárfesta aukast í DIFX.