Í júlí var oftast flogið til Kaupmannahafnar af öllum þeim 52 borgum sem flogið var til frá Keflavíkurflugvelli. Kaupmannahöfn var því vinsælasti áfangastaðurinn í júlí  og tók þar með toppsætið af London. Fjallað er um málið á vef Túrista.

Yfir vetrarmánuðina er umferð til London mun meiri en til annarra borga. Á sumrin fækkar ferðunum hins vegar til bresku höfuðborgarinnar á meðan þeim fjölgar á flesta aðra áfangastaði.

Þriðji vinsælasti áfangastaðurinn í júlí var París og í fjórða sæti var New York. Samkvæmt frétt Túrista fjölgar ferðum til Parísar og New York verulega yfir háannatímann í ferðaþjónustunni. Þá skjótast borgirnar jafnan upp fyrir Osló á listanum yfir þá staði sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli. Í júlí var slíkt upp á teningnum.

Alls var boðið upp á áætlunarflug til fimmtíu og tveggja borga í júlí en leiguflug á vegum ferðaskrifstofa er ekki tekið með í útreikninga Túrista.