Launa- og kaupmáttarþróun hefur verið hagstæð upp á síðkastið. Síðastliðna 12 mánuði hafa regluleg laun landsmanna hafa hækkað um 10,5% sem gaf að meðaltali 8,5% kaupmáttaraukningu. Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

„Kaupmáttur launa er nú hærri en hann hefur verið nokkurn tíma áður. Kaupmáttur launavísitölu varð hæstur í ágúst 2007, náði svo aftur sama stigi í nóvember 2014 og hefur aukist um 13,9% síðan þá.

Launahækkanir hafa verið miklar síðustu mánuði og fór 12 mánaða launahækkunar taktur upp í 13,4% í apríl í ár,“ segir í Hagsjánni.

Laun á almenna markaðinum hærri

Árshækkun allra frá öðrum ársfjórðungi 2015 var 13% sem gaf 11,2% kaupmáttaraukningu. Þar af var hækkunin 13,5% á almennum vinnumarkaði og 12,7% hjá opinberum starfsmönnum. En þar af hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 13,7% og laun starfsmanna sveitarfélaga um 11,5%.

„Sé litið á þróun þessara hópa til aðeins lengri tíma má sjá að frá upphafi ársins  2011 hafa þeir þróast með mjög svipuðum hætti, eða í fimm og hálft ár. Þannig munar einungis 0,4% á launahækkunum almenna markaðarins og hins opinbera á þessu tímabili.
Munur hefur myndast á milli hópanna á ákveðnum tímabilum, en hann jafnast yfirleitt fljótlega aftur,“ er þó tekið fram í Hagjpánni.

Verkafólk hækkar mest

Ef launahækkanir eru greindar eftir starfstéttun milli annars ársfjórðungs 2015 og 2016 er munurinn milli þeirra töluverður. Verkafólk hefur hækkað mest og sérfræðingar og stjórnendur minnst. Hækkunin hjá verkafólki var fimm prósentum meiri en hjá stjórnendnum.