Stjórn Skeljungs leggur til að kaupréttarkerfi fyrir lykilstarfsmenn félagsins verði tekið upp. Verði tillagan samþykkt mun stjórninni vera heimilt að gefa út allt að 5% af útgefnu hlutafé í kauprétti á árunum 2022-2027. Þetta kemur fram í álykunartillögum stjórnar fyrir aðalfund Skeljungs sem fer fram kl 16 þann 10. mars næstkomandi í Ballroom salnum á Reykjavík Edition hótelinu.

„Markmið þessa er að laða að hæft lykilstarfsfólk, halda því innan félagsins á samkeppnishæfum kjörum og samtvinna langtíma hagsmuni starfsfólks, félagsins og hluthafa allra,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Auk Skeljungs hafa stjórnir Icelandair og Símans lagt fram tillögur fyrir komandi aðalfundi um kaupréttaráætlanir fyrir starfsmenn. Í tilviki Icelandair var lagt til kaupréttarkerfi fyrir framkvæmdastjórn og aðra valda lykilstarfsmenn flugfélagsins en stjórn Símans lagði til kaupréttaráætlun fyrir allt starfsfólk og aðra fyrir forstjóra og æðstu stjórnendur.

Sjá einnig: Skeljungur verður SKEL Fjárfestingafélag

Stjórn Skeljung leggur einnig til breytingu á samþykktum félagsins sem heimilar stjórninni að hækka hlutafé um 200 milljónir að nafnvirði, eða sem nemur 3 milljörðum að markaðsvirði í dag, og að hluthafar falli frá forgangsrétti sínum. Með þessu mun stjórnin fá heimild, sem gildir til aðalfundar á næsta ári, til að gefa út nýtt hlutafé til að „ráðstafa sem greiðslu fyrir hluti í öðrum félögum eða til að fjármagna ytri vöxt félagsins“.

Guðbjörg Heiða og Sigríður vilja í stjórnina

Í skýrslu tilnefningarnefndar Skeljungs fyrir aðalfundinn kemur fram að auk núverandi stjórnarmanna hafi Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel á Íslandi, og Sigríður Olgeirsdóttir, sem starfaði síðast sem sviðsstjóri þjónustu hjá Völku árin 2019-2021, boðið sig fram til stjórnarsetu. Tilnefningarnefndin leggur til að núverandi stjórnarmenn verði endurkjörnir.

„Í ljósi talsverðrar veltu á stjórnarmönnum á undanförnum árum og ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem nú eiga sér stað í starfsemi fyrirtækisins eins og líst hefur verið hér að framan, telur tilnefningarnefnd að þessu sinni tilefni til að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að ákveðin samfella sé í stjórn félagsins,“ segir í skýrslu nefndarinnar. Fram kemur að hluthafar hafi tekið undir þessi sjónarmið í samtölum við nefndina.

Í stjórn Skeljungs sitja:

  • Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður
  • Birna Ósk Einarsdóttir, varaformaður stjórnar
  • Þórarinn Arnar Sævarsson
  • Nanna Björk Ásgrímsdóttir
  • Sigurður Kristinn Egilsson

Tilnefningarnefnd Skeljungs er skipuð af Katrínu S. Óladóttur, framkvæmdastjóra Hagvangs, Sigurði Kára Árnasyni, yfirlögfræðingi heilbrigðisráðuneytisins, og Þórarni Arnari, sem situr í stjórn Skeljungs. Sigurður Kári er formaður nefndarinnar.