Stjórn Símans leggur til við aðalfund félagsins þann 10. mars næstkomandi að sett verði á fót kaupréttaáætlun, bæði fyrir alla fastráðna starfsmenn félagsins og aðra fyrir forstjóra og lykilstjórnendur „en aðeins ef fyrir liggur endanleg sala á dótturfélaginu Mílu“. Þetta kemur fram í tillögum stjórnar fyrir aðalfundinn.

Fyrirhugaða kaupréttaráætlunin mun ná til allra fastráðinna starfsmanna félagsins og dótturfélaga þess, að Mílu undanskildu. Gerðir verða kaupréttarsamningar við þá starfsmenn sem það kjósa, sem heimilar þeim að kaupa hluti í félaginu að andvirði 1,5 milljónum króna á hverju ári í þrjú ár frá veitingu kaupréttar.

„Markmið með veitingu kauprétta til allra starfsmanna sem þess kjósa á grundvelli þessarar kaupréttaráætlunar er að tengja hagsmuni allra starfsmanna við hagsmuni hluthafa og veita þeim hlutdeild í afkomu félagsins,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Fram kemur að slíkir kaupréttir njóta sértaks skattalegs hagræðis fyrir starfsmenn þar sem allar tekjur vegna þeirra eru skattlagðar sem fjármagnstekjur að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Kauprétti verður fyrst hægt að nýta er tólf mánuðir hafa liðið frá gerð kaupréttarsamnings og starfsmenn verða að eiga keypta hluti í tvö ár hið skemmsta, vilji þeir nýta skattalegar ívilnanir sem í áætluninni felast. Kaupverð hluta skal ekki vera lægra en vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf félagsins tíu heila viðskiptadaga fyrir gerð hvers kaupréttarsamnings.

Sér kaupréttaráætlun fyrir forstjóra og æðstu stjórnendur

Stjórn Símans leggur til að sérstök kaupréttaráætlun verði gerð fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og lykilstarfsmenn að því gefnu að endanleg sala á Mílu liggur fyrir en hún er háð samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Verði tillagan samþykkt þá verður stjórninni heimilt að veita kauprétta að allt að 75 milljónum hluta í Símanum, sem eru 945 milljónir króna að markaðsvirði í dag.

Samkvæmt kaupréttaráætluninni mun Orri Hauksson, forstjóri Símans fá rétt á kaupréttum sem nema 15% af úthlutuðum hlutum. Í ársreikningi Símans sem birtur var í gær kom fram að laun, kaupaukar og hlunnindi Orra hafi numið 67,5 milljónum króna á síðasta ári sem er 16% hækkun frá fyrra ári.

Sjá einnig: Síminn hagnast um 5,2 milljarða

Veittir kaupréttir fyrir forstjóra og aðra lykilstjórnendur munu ávinnast á þremur árum en nýtingu kaupréttar verður dreift yfir þrjú ár að ávinnslutímabili loknu. Kaupverð hlutanna við nýtingu skal nema dagslokagengi hlutabréfa félagsins næsta virka dag fyrir gerð kaupréttarsamnings, auk 4% ársvaxta.

„Með kaupréttarkerfi á grundvelli kaupréttaráætlunar fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og lykilstarfsmenn er markmiðið að laða að og halda í hæft starfsfólk og tengja hagsmuni þeirra sem veittir eru kaupréttir við afkomu og langtímamarkmið félagsins og hluthafa þess,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Óbreytt stjórn

Tilnefningarnefnd Símans leggur til að núverandi stjórnarmenn félagsins verði endurkjörnir á aðalfundinum. Auk núverandi stjórnarmanna bauð einn einstaklingur sig fram til stjórnarsetu en dró framboð sitt svo til baka. Nefndin leggur því til að eftirfarandi sitji áfram í stjórninni:

  • Jón Sigurðsson, stjórnarformaður
  • Sigrún Ragna Ólafsdóttir, varaformaður stjórnar
  • Arnar Þór Másson
  • Bjarni Þorvarðarson
  • Björk Viðarsdóttir

Í tilnefningarnefndinni sitja Jesína Kristín Böðvarsdóttir formaður, Steinunn Kristín Þórðardóttir og Sverrir Briem.