Samvinnufélagið KEA festi á dögunum kaup á 10% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu á Akureyri og á nú 25% hlut í félaginu, að því er kemur fram í tilkynningu á vef KEA. Á söluhliðinni voru stofnendur og starfsmenn sem hafa unnið lengi hjá Stefnu sem minnkuðu við sig hlut inn í félaginu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

KEA eignaðist 15% hlut í Stefnu árið 2021. Á sama tíma fjárfesti Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta, í Stefnu og á hann um 10% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu.

„Stefna er ört vaxandi fyrirtæki á sínu sviði en meginverkefni félagsins snúa að vefhönnun, smíði símasmáforrita og sérhönnuðum hugbúnaðarlausnum,“ segir í tilkynningu KEA.

„Verkefnastaða félagsins er góð á öllum sviðum og horfur í rekstri félagsins eru góðar en umsvif félagsins hafa vaxið mikið á síðustu árum.“

Stefna velti 588 milljónum króna árið 2022 sem samsvarar 34% aukningu frá árinu 2021. Ársverk voru 34. Hugbúnaðarfyrirtækið hagnaðist um tæplega 70 milljónir króna árið 2022. Eignir Stefnu voru bókfærðar á 254 milljónir króna í árslok 2022 og eigið fé var um 130 milljónir.