Jim Yong Kim, sitjandi forstjóri Alþjóðabankans, hefur verið endurkjörinn einróma. Það þýðir að Kim muni sitja sitt annað fimm ára kjörtímabil, sem hefst 1. júlí 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþjóðabankanum .

Viðskiptablaðið hafði áður greint frá því að Kim, sem er hálf bandarískur og hálf Suðurkóreskur, kæmi til með að bjóða sig aftur fram í gegnsæju og sanngjörnu ferli.

Jim Yong Kim er sérfræðingur í heilbrigðismálum og nam við Harvard háskóla. Hann hefur áður starfað sem forseti Dartmouth háskóla.

Það virðist því vera að ekki verði breyting á því að Bandaríkjamaður stjórni Alþjóðabankanum. Nánari upplýsingar um kjörið er hægt að finna á tilkynningu Alþjóðabankans.