Kínverskur auðmaður segist vera tilbúinn til viðræðna um kaup á bandaríska dagblaðinu New York Times. Reuters-fréttastofan segir Kínverjann, sem heitir Chen Guangbiao, stefna á að funda með hluthöfum útgáfufélagsins dagblaðsins á sunnudag. Hann segir í samtali við fréttastofuna allt falt fyrir rétt verð. Reuters hefur hins vegar eftir Arthur Sulzberger, Jr. stjórnarformanni útgáfufélagsins, að reksturinn sé ekki til sölu.

Að sögn Reuters hafa fleiri auðkýfingar borið víurnar í útgáfu New York Times. Þar á meðal er Donald Trump, sem leitaði leiða til að eignast útgáfufélagið í fyrravor.