Ítalskir saksóknarar vilja leggja fram formlega ákæru á nánast 300 manns, þar á meðal háttsetta menn innan kínverska ríkisbankans „Bank of China“ í Mílanó, vegna peningaþvættis.

Þeir vilja meina að 4,5 milljarðar evra hafi verið millifærðir frá Ítalíu til Kína í gegnum bankann og að þessar fjárhæðir hafi unnist inn í gegnum vændi, peningafölsun, skattsvik og þrælkun.

Ansa fréttaveitan greindi frá því að fjórir hátt settir einstaklingar innan bankans gætu átt von á ákæru, en peningaþvættið ku hafa átt sér stað á árunum 2007 til 2010. Fyrir þessar millifærslur fékk Bank of China rúmlega 750.000 evrur í þóknun.

Þá kemur fram að framkvæmdar hafi verið milljónir millifærsla sem voru undir 2.000 evra markinu sem hrindir af stað rannsóknum á peningaþvætti. Nú er búið að lækka þann þröskuld niður í 1.000 evrur.

Dómari mun nú ákveða hvort að bankinn ásamt 297 einstaklingum verði ákærður, en hvorki bankinn né kínversk stjórnvöld hafa svarað fyrir ásakanirnar.