Nefco, Nordic Green Bank, hefur undirritað lánssamning við Klappir, sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum í sjálfbærni. Fjármögnunin frá Nefco verður notuð til að auka starfsemi í Evrópu og Norður-Ameríku, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Lánsfjárhæðin er ekki gefin upp.

„Græn fjármögnun Nefco gefur Klöppum tækifæri til að halda áfram að vinna að grænni og sjálfbærari framtíð og vaxa og sækja fram á alþjóðlegum mörkuðum,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa.

Klappir, sem er skráð á First North-markaðinn, þróar hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum og öðrum stofnunum að bera kennsl á losunarþætti þeirra og aðstoðar við að gera ráðstafanir til að minnka kolefnisfótspor þeirra. Sjálfbærnilausn Klappa telur nú þegar meira en 6.000 notendur á Íslandi og í Danmörku.

Sjá einnig: Klappir Nordic opnar í Kaupmannahöfn

„Alhliða samvinna, gagnastjórnun og miðlun eru lykillinn að sjálfbærari framtíð. Við veitum tæknina og reynsluna sem styður þessa mikilvægu þætti umbóta á sjálfbærni. Vöktun og tenging fyrirtækja á alþjóðlegum grunni, í sjálfbærnilausn eins og Klappir hafa þróað og selt síðan 2015 verður ómissandi þáttur í samkeppnis-, laga- og eftirlitsáætlunum stofnana, sem og fyrir stjórnvöld á öllum stigum,“ segir Jón Ágúst.

„Fyrirtæki verða að bregðast við gildandi reglugerðum, sjá fyrir breytingar á lögum og vera reiðubúin til að fara eftir þeim. Því er fyrirséð að aukin eftirspurn verður eftir skilvirkum hugbúnaðarlausnum til að bæta nákvæmni ákvarðana sem tengjast sjálfbærnibókhaldi, greiningu og umhverfisspám. Sjálfbærnilausn Klappa hjálpa fyrirtækjum, sveitarfélögum og stjórnvöldum að mæla og greina frá sjálfbærniframmistöðu sinni og minnka kolefnisfótspor þeirra.“

Hingað til hefur viðskiptavinum Klappar tekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 21% á þriggja ára tímabili og bætt úrgangsflokkun sína. Nefco hefur metið starfsemi Klappa sem gilda og í samræmi við markmið Evrópusambandsins um að draga úr loftslagsbreytingum.

„Þetta er gott dæmi um að líta á upplýsingakerfi sem grænar lausnir sem stuðla að breytingu í loftslagsmálum. Við gerum okkur vel grein fyrir því að flokkunarkerfi ESB og nýja tilskipun um sjálfbærni skýrslugerðar fyrirtækja, geta skapað áskoranir fyrir mörg fyrirtæki að uppfylla kröfurnar. Þessi tegund af grænum hugbúnaðarlausnum hefur möguleika á að ná árangri og við erum fús til að hjálpa Klöppum á alþjóðlega markaði,“ segir Thor Thorsteinsson, aðstoðarforstjóri hjá Nefco.