Bæjarins beztu pylsur hafa samið við Vífilfell um sölu drykkjarfanga frá fyrirtækinu til ársins 2020. Coca-Cola og annað gos frá Vífilfelli hefur verið selt á Bæjarins beztu frá upphafi og var vilji af beggja hálfu að halda samstarfinu áfram. Samningurinn var undirritaður í vikunni og fengu forsvarsmenn fyrirtækjanna sér eina með öllu og Coke á Bæjarins beztu af því tilefni.

Bæjarins beztu hafa fært út kvíarnar undanfarin ár og eru fleiri staðir á teikniborðinu. Nú er hægt að gæða sér á pylsunum þeirra á fimm stöðum víðsvegar um borgina, auk þess sem sérstakur ferðavagn mætir á ýmsa viðburði.

Nýjasti staðurinn var opnaður á Stjörnutorgi í Kringlunni í desember en mesta veltan er hins vegar við Tryggvagötuna og eru langar raðir ekki óalgeng sjón við pylsuvagninn þar. Það er því um að ræða umtalsvert magn af gosi sem selt verður út um lúgu Bæjarins beztu á næstu fimm árum og samningurinn tekur til.

„Við höfum alla tíð verið afar ánægð með samstarfið við Bæjarins beztu pylsur og því erum við í Vífilfelli afar stolt að því að fá að þjónusta fjölskyldufyrirtækið áfram. Þetta er mikilvægur samningur en flestir velja að drekka gos þegar þeir fá sér pylsu og í hugum margra er pylsa og Coke hinn eini sanni þjóðarréttur Íslendinga,“ segir Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells.