Fjögur helstu hernaðarveldi Evrópu — Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Spánn — munu leggja meiri áherslu á það að ýta undir varnarsamstarf innan álfunnar, og þá sér í lagi meðal ríkja Evrópusambandsins, í kjölfar kosningu Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Áhyggjur eru uppi um að Trump eigi eftir að draga úr stuðningi við Evrópuríki. Þetta kemur fram í frétt Politico .

Eins og áður hefur verið greint frá þá hafa varnarmálaráðherrar Þýskalands og Frakklands lagt fram hugmyndir um nánar samstarf ríkja ESB í varnarmálum. Kjörið vestanhafs gefur þessari hugmynd byr undir báða vængi.

„Aldrei eins mikið í húfi“

Haft er eftir háttsettum frönskum embættismanni í frétt Politico að: „Við höfum takmarkaða tiltrú á því hversu lengi Bandaríkjamenn skipti sér að Evrópu. Það hefur aldrei verið meira í húfi hvað varnarmál varða.“

Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur áður tekið vel í hugmyndina um að hefja frekara samstarf meðal ríkja Evrópusambandsins þegar það kemur að hernaðarmálum. Nú þegar ljóst er að Bretar komi að öllum líkindum úr sambandinu þá er ólíklegt að þeir setji sig upp á móti nánara samstarfi.