Ítalski húsgagnaframleiðandinn Cassina hefur krafist þess af Reykjavíkurborg að eftirlíkingum af stólum og sófum eftir franska hönnuðin Le Corbusier sem er að finna í Ráðhúsi Reykjavíkur varði fargað og frumhönnun verði keypt í staðinn. Fréttablaðið greinir frá þessu.

„Við förum fram á að borgin kaupi frumhönnun til að sýna fram á að húsgögnin hafi verið keypt í góðri trú,“ segir Alex Colding, svæðisstjóri Cassina á Norðurlöndunum, í samtali við Fréttablaðið. Verði borgin ekki við kröfunni mun fyrirtækið fara fram á skaðabætur vegna þess skaða sem eftirlíkingarnar hafa valdið.

Skúli Rósantsson, eigandi húsgagnaverslunarinnar Casa sem er söluaðili Cassina á Íslandi, segir að eftirlíkingarnar í Ráðhúsinu séu sæti fyrir 150 manns og kostnaður borgarinnar við að kaupa frumhönnun gæti farið yfir 100 milljónir.