Kreppan sem Íslendingar ganga nú í gegnum er að líkindum hvorki V né U laga heldur fremur í laginu eins og þorrablótstrog. Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun.

Ásgeir sagðist óttast að stöðnun einkenndi efnahagslífið lengur en búist var við í upphafi. Batinn verði því hægari en margir hafi vonast eftir þegar heimsfaraldurinn skall á.

Hins vegar gæti batinn orðið mjög hraður þegar hættan af veirunni væri liðin hjá, til að mynda ef tekst að þróa bóluefni við veirunni. Sem dæmi um það hafi ferðaþjónustan brugðist mun hraðar við aðstæðum í sumar en Seðlabankinn hafi átt von á í hagspá sinni í vor.

Seðlabankinn spáir nú um 7% samdrætti á þessu ári miðað við um 8% samdrátt í hagspá bankans. Miklu munaði um að einkaneysla Íslendinga í sumar hafi verið meiri en gert var ráð fyrir. Alltaf mætti treysta á Íslendinga til að eyða peningum. Verkefni Seðlabankans frá því í vor hafi verið að örva innlenda eftirspurn enda var ekki búist við neinum ferðamannastraumi af ráði til landsins.

Ekki hægt að leysa allt í Excel

Þá gagnrýndi Ásgeir hugmyndir að hægt væri að reikna sig niður á niðurstöðu varðandi sóttvarnir á landamærunum. Mikið hefur verið fjallað um minnisblað sem fjármálaráðuneytið birti samhliða því sem greint var frá því að allir sem kæmu til landsins þyrftu að fara tvisvar í skimun og fara í fimm til sex daga sóttkví þess á milli.

Ómögulegt væri fyrir hagfræðinga eða aðra að útbúa Excel skjal með heildarkostnaði og ábata af því að hafa landamærin opin eða lokuð. „Það er bara rangt,” sagði Ásgeir. Hægt væri að reyna að gera sér grein fyrir hvaða hagsmunir væru til staðar og kostir og gallar hverrar leiðar en að lokum væri það kjörinna fulltrúa að ákveða hvaða leið væri farin.

Hins vegar gæti Ísland ekki verið lokað fyrir umheiminum til lengri tíma. Allar atvinnugreinar sem byggðu alþjóðaviðskiptum treystu á að greiðar samgöngur til og frá landinu, ekki bara ferðaþjónustan.