Við höfum ekki hagað okkur vel í alþjóðasamfélaginu og í raun má segja að við séum komin í tossabekkinn meðal annarra þjóða.

Þetta sagði Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga nú í hádeginu en fundurinn var haldinn undir heitinu; Næstu skref: Hvað er framundan í íslensku efnahags- og atvinnulífi?

Kristín sagði að til þess að byggja upp trúverðugleika meðal annarra þjóða væri nauðsynlegt að Ísland gengi í Evrópusambandið. Þannig sagði Kristín að með inngöngu í ESB væri Ísland orðið þátttakandi í alþjóðasamfélaginu á ný.

Hún sagði að upptaka evru myndi bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja en aðgangur að lánsfjármagni er nú mjög takmarkaður og endurfjármögnun stærri fyrirtækja og opinberra aðila er í mikilli óvissu.

Kristín sagði þó að ekki væri nóg að ganga í ESB, hér þyrfti að eiga sér stað hugarfarsbreyting í atvinnulífinu. Mikil áhersla hefði verið á fjármálastarfssemi undanfarin ár en á sama tíma hefðu aðrir geirar, s.s. sprotafyrirtæki gleymst. Hún sagði að sprotafyrirtæki hefðu á sínum tíma ekki getað keppt við fjármálageirann um mannauð en nú væri að verða þar breyting á.

Þá sagði Kristín jafnframt að auðlindir Íslands færi með sér mörg tækifæri sem vert væri að nýta á næstu árum, t.a.m. ferðaþjónustu, vatns- og sjávarauðlindir og fleira. Hún sagði að á tímum sem þessum yrðu bestu fyrirtækin oft til.

Kristín lagði í ræðu sinni áherslu á tækifæri í sjálfbærum fyrirtækjum. Hún sagði að neytendur, önnur fyrirtæki og fjárfestar leituðu nú tækifæra meðal sjálfbærra fyrirtækja og vert væri að gefa þeim meiri gaum.